Útvistun á heilbrigðisþjónustu Landspítala

Fimmtudaginn 03. apríl 2008, kl. 11:33:42 (5984)


135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

útvistun á heilbrigðisþjónustu Landspítala.

[11:33]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér hefur fundist hún að stærstum hluta vera mjög góð og það eru nær allir þingmenn, held ég, og ég held að við séum flest í hjarta okkar alveg meðvituð um verkefni okkar. Verkefni okkar er að veita eins góða þjónustu og mögulegt er fyrir landsmenn, alla landsmenn. Það er alveg sama — það er alveg sama verkefnið og sá sem hér stendur hefur og það sem fyrri heilbrigðisráðherrar höfðu og framtíðarheilbrigðisráðherrar hafa — maður er alltaf með takmörkuð fjárráð. Þannig er það. Og ef einhver reynir að halda einhverju öðru fram þá annaðhvort skilur hann ekki þessi grundvallaratriði eða talar gegn betri vitund. Það að forustumenn Landspítalans fari þessa leið til að opna þessa deild, til að auka þjónustuna er bara sjálfsagt og eðlilegt. Við vitum kredduna hjá Vinstri grænum. En þegar hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir talar gegn þessu þá er hún ekki að ráðast á þann sem hér stendur heldur er hún að ráðast á sína eigin flokksmenn, fyrrum ráðherra Framsóknarflokksins. En það virðist vera að það sé orðin regla hjá þeim hv. þingmanni að ráðast á sína eigin flokksmenn ef marka má fréttir. Ef menn eru á móti því að Landspítalinn geri þetta með þessum hætti, þá hljóta þeir að gagnrýna það sem hefur verið gert áður.

Varðandi háskólahlutverkið þá er alveg hreint og klárt að markmið okkar er að sjá til þess að efla það og það er alveg hægt að gera það í samvinnu við einkaaðila. Ekkert mælir gegn því, nákvæmlega ekki neitt. Ef svo er þá hafa ráðherrar Framsóknarflokksins gert einhver stórkostleg mistök í gegnum tíðina. Það sem ég fór í gegnum hér voru fyrst og fremst verk sem hafa verið framkvæmd áður en þessi ríkisstjórn tók við. Og varðandi hvað sé hægt að gera í ríkisstjórn þá vek ég athygli á stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins árið 1999. Hvað varð um efndirnar þar þegar (Forseti hringir.) kom að heilbrigðismálunum og kostnaðargreiningu? Það er enn þá eftir að framkvæma það, virðulegi forseti.