Ráðstafanir í efnahagsmálum

Fimmtudaginn 03. apríl 2008, kl. 13:07:28 (6002)


135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[13:07]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta langt. Ég held að við séum sammála um margt, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, varðandi þann grunn sem lýtur að jöfnuði. Ég tjáði í sjálfu sér mína skoðun varðandi útfærslu á fjármagnstekjuskattinum og taldi að það bæri frekar að styrkja ákveðna þætti sem lúta að vaxtabótum og barnabótum. Ég get hins vegar verið alveg sammála því að hvetja þarf til sparnaðar og hugsanlegt er að sá hvati sem hér er lagt upp með og gæti þá verið tímabundin útfærsla á frestun á fjármagnstekjuskatti eða niðurfellingu á honum vegna slíkra hliðarskilyrða eins og hér er lagt upp með, verði sá hvati sem við þyrftum að fá.

Þetta hefur auðvitað verið útfært fyrr á árum með ýmsu móti og til að mynda í tengslum við kjarasamningana sem staðfestir voru 17. febrúar sl. þá er þar í raun og veru lagt aftur upp með endurnýjun á sparimerkjasöfnun. Ég minni líka á að Seðlabankinn fór nú eftir páskana fram með ákveðnar aðgerðir sem gleymdust í umræðunni tengt síðustu hækkun stýrivaxta. Það er útgáfa á innstæðubréfum og einnig að tengja ekki bindiskyldu viðskiptabankanna þar sem útibú eru erlendis við heildarbindiskylduna sem þýðir að hugsanlega hreyfist fjármagn þá eitthvað frekar á markaði.

Út af því að hér var minnst á Hafnarfjörð, virðulegi forseti, þá verð ég auðvitað að greina frá því, eins og komið hefur fram í fjölmiðlum, að Hafnarfjarðarbær var að taka stórt fjárfestingarlán út af stórum fjárfestingum sem bærinn er að fara í og náði þar mjög góðum kjörum þannig að eftir var tekið. Það sem mér finnst hins vegar hvimleitt í umræðunni er að einstaka aðilar vilja halda því fram að þetta sé út af einhverjum fjárhagsvandamálum í Hafnarfirði en ég vík því til hliðar og segi að hér er einfaldlega um að ræða stórar fjárfestingar sem voru ákveðnar fyrir mjög mörgum árum síðan.