Veðurstofa Íslands

Fimmtudaginn 10. apríl 2008, kl. 11:16:21 (6333)


135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

Veðurstofa Íslands.

517. mál
[11:16]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir framsögu um frumvarpið um Veðurstofu Íslands. Þrátt fyrir að á sínum tíma hafi verið ágreiningur um ýmis atriði sem snertu frumvarp um Stjórnarráð Íslands hygg ég að enginn efnislegur ágreiningur hafi verið um samþættingu og sameiningu starfsemi Veðurstofunnar annars vegar og vatnamælinga hins vegar. Ég á ekki von á því að við umfjöllun um málið í umhverfisnefnd verði sérstakur ágreiningur um það atriði, grundvallarprinsippið á bak við það frumvarp sem hér liggur fyrir.

Ég vil við 1. umr. láta koma fram að við fulltrúar Vinstri grænna í nefndinni áskiljum okkur að sjálfsögðu rétt til að hafa skoðanir á einstökum útfærsluþáttum sem hér er fjallað um. Það getur til að mynda lotið að þáttum eins og því sem ráðherra nefndi í framsögu sinni og varðar kostnaðargreininguna. Í ákvæðum til bráðabirgða er gert ráð fyrir fresti til ársins 2011 til að ljúka því verki. Ég mundi a.m.k. vilja fá frekari skýringar á því af hverju menn telja sig þurfa svo langan tíma til þess. Annað atriði getur lotið að því að gert er ráð fyrir að forstjóri Veðurstofunnar sé skipaður 1. ágúst 2008 en lögin taki gildi 1. janúar, stofnunin verði í raun og veru til samkvæmt þessum lögum 1. janúar 2009. Um slíkt prinsippatriði varð t.d. umræða við afgreiðslu varnarmálalaga þar sem utanríkismálanefnd lagði til að skipan forstjóra stofnunarinnar og stofnun stofnunarinnar félli saman samkvæmt lögum og taldi annað ekki góða stjórnsýslu. Mér finnst eðlilegt að farið verði yfir þessi atriði.

Ég velti líka fyrir mér ákvæðum í 6. gr. um fagráð þar sem segir að heimilt sé að skipa fagráð til að vera forstjóra til ráðgjafar og ráðherra setji það í reglugerð. Í lögunum þarf að vera aðeins skýrar kveðið á um það hvert hlutverk slíks fagráðs eigi að vera, að það sé ekki algerlega sett í hendur á reglugerðargjafanum sem mun þá gera þessar tillögur að tillögu forstjóra Veðurstofunnar. Smáatriði eins og það hvað forstjóri stofnunarinnar heitir, þ.e. starfsheitið. Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið íhaldssamur í þeim efnum. Veðurstofustjóri er prýðilegt starfsheiti en hér er lagt til að það verði forstjóri Veðurstofunnar. Það virðist vera lenska hjá ríkinu um þessar mundir að taka upp forstjóraheitið og væntanlega er það gert hér til samræmis við ýmislegt annað. En það má líka velta fyrir sér af hverju þarf að breyta því sem gott er. Einhver spurði í umræðum í gær: Af hverju þarf að gefa meðal eða lyf við því sem enginn sjúkdómur er?

Mér finnst sjálfsagt að við förum aðeins yfir atriði af þessu tagi og verkefnalistann sem er ítarlegur. En í grundvallaratriðum held ég að um meginprinsipp frumvarpsins sé enginn sérstakur ágreiningur. En að sjálfsögðu er rétt að koma á framfæri almennum fyrirvara við það sem kann að koma fram í umfjöllun nefndar, í umsögnum umsagnaraðila o.s.frv.