Rækjuveiðar

Þriðjudaginn 15. apríl 2008, kl. 13:41:57 (6387)


135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

rækjuveiðar.

[13:41]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Nú um árabil hefur engin rækjuveiði verið stunduð á Íslandsmiðum og aflaheimildir í rækju verið ónotaðar. Nú hafa einstaka útgerðarmenn, sem ekki hafa yfir aflaheimildum í rækju að ráða, hug á að stunda rækjuveiðar með aflasamdrætti í þorski og niðurskurði á þorskveiðiheimildum. Ég spyr því sjávarútvegsráðherra: Mun sjávarútvegsráðherra stuðla að því að þessir aðilar fái aflaheimildir til að hefja þessar veiðar?

Það er ekki hægt að fá rækjukvóta í dag. Úthlutað er kvóta upp á 7–8 þús. tonn af rækju og aðeins búið að veiða um 200–300 tonn. Það er verið að skaða samfélagið. Það er verið að skaða þá staði þar sem rækjuverksmiðjur eru. Fólkið fær ekki atvinnu sem annars gæti unnið í rækjuverksmiðjum og útgerðir, sem eru kvótalitlar og kvótalausar í dag, fá ekki aðgang að rækjukvóta vegna þess að þeir sem eru handhafar kvótans nota þetta sem skiptimynt. Þeir veiða ekki rækjuna og geta þar af leiðandi leigt frá sér meira af bolfiskveiðiheimildum. Þetta er einn partur af þessu brjálaða fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við og dæmi um það hve fáránlegt ástandið er þegar við nýtum ekki 7–8 þús. tonn af rækjukvóta sem við gætum nýtt og jafnvel meira. Rækjukvótinn virðist vera á uppleið. Tvö skip veiða rækju í dag á Íslandsmiðum og þau fiska mjög vel þannig að ég spyr sjávarútvegsráðherra: Ætlar hann ekki að leggja sitt af mörkum við að breyta þessu óréttlæti?