Varnarmálalög

Þriðjudaginn 15. apríl 2008, kl. 15:50:25 (6416)


135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:50]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins fyrst varðandi umræðuna og hófstillingu hennar hér þegar 1. umr. fór fram og það hvernig Vinstri grænir hafa síðan færst í aukana og talað um hernaðarvæðingu og NATO-væðingu landsins væntanlega, ef þetta frumvarp nær fram að ganga, þá á það auðvitað, eins og ég gat um áðan, ekki við nein rök að styðjast. Íslendingar herja ekki á neinn. Íslendingar gæta loftvarna sinna, gæta lofthelgi sinnar og landhelgi og herja ekki á neinn. Þess vegna er beinlínis rangt, og er dæmigert fyrir þennan dilkadrátt Vinstri grænna, að vera að tala um hernaðarvæðingu eða NATO-væðingu vegna þessa frumvarps. Þetta er ekki málefnalegt innlegg í umræðuna og ég man ekki eftir því að það hafi verið með þessum hætti við 1. umr. heldur er þetta eitthvað sem menn hafa fundið upp á síðar eftir að hafa skoðað hvaða pólitísku tækifæri gætu legið í þessu.

Varðandi það að líta til annarra átta erum við auðvitað í margvíslegu samstarfi á sviði öryggismála, m.a. í gegnum Schengen, væntanlega í gegnum löggæsluna, það sem að henni lýtur, við erum það varðandi Landhelgisgæsluna og fleiri aðila. En öryggis- og varnarsamstarf, ef við erum að tala um það, eins og var talað um m.a. í Norðurlandaráði síðast, þá eru auðvitað NATO-þjóðir þar inni varðandi Norðurlöndin en líka þjóðir eins og Svíar og Finnar sem eru reyndar búnar að taka upp heilmikið varnarsamstarf við Norðmenn núna, varnarsamstarf við NATO-þjóðina Norðmenn, þær tvær þjóðir sem eru þó utan NATO. Eins er hitt, eins og ég sagði áðan, og það er hin sameiginlega öryggis- og varnarstefna Evrópusambandsins og undir þeim formerkjum fer þetta fram. Þó að Vinstri grænir (Forseti hringir.) vilji hafa formerkin einhver önnur hafa Norðurlandaþjóðirnar og Evrópuþjóðirnar ákveðið að hafa þetta svona.