Opinberir háskólar

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 11:16:56 (6549)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[11:16]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um opinbera háskóla. Með frumvarpi þessu eru lagaákvæði um opinberra háskóla færð til samræmis við þann almenna lagaramma um starfsemi háskóla sem ákvarðaður var með lögum nr. 63 frá 2006, um háskóla. Ákvæði þeirra laga taka til allra íslenskra háskóla óháð rekstrarformi og afmarka fagleg og rekstrarleg starfsskilyrði skólanna. Þar skipta mestu máli kröfur laganna um gæðaeftirlit, samræmingu prófgráða og gagnkvæma viðurkenningu náms ásamt áherslu á sveigjanleika í skipulagi háskólanna sem og að þeim sé tryggt faglegt sjálfstæði. Þar var undirstrikuð sérstaklega sú meginregla sem gildir hér á landi að byggja og hlúa vel að sjálfstæði háskólanna.

Ákvæði gildandi sérlaga um háskólana þrjá, Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands, byggja öll á áþekkum grunni og hafa að geyma hliðstæð ákvæði í flestum efnum. Þá hefur mikil samvinna verið milli skólanna um framkvæmd og setningu reglna. Má slá því föstu að skólarnir búi allir við eitt og sama umhverfi í lagalegu tilliti. Í frumvarpinu er við það miðað að ein heildarlöggjöf muni gilda um alla opinbera háskóla. Ekki er á þessu stigi gert ráð fyrir því að frumvarpið taki til menntastofnana landbúnaðarins. Ég tel þó fyrirsjáanlegt í ljósi þeirrar skipanar sem stefnt er að með frumvarpinu að taka verði ákvæði laga um búnaðarfræðslu til endurskoðunar eins og mælt er nánar fyrir um í ákvæði frumvarpsins til bráðabirgða.

Almenn samstaða mun vera um það meðal íslenskra háskólamanna að vel hafi tekist til með setningu rammalaganna og að ekki sé þörf á því að greina á milli íslenskra háskóla eftir rekstrarformi þeirra. Það leiðir hins vegar af þeim almennu sjónarmiðum sem gilda um ríkisrekstur að þörf er á sérstökum lögum um þá opinberu háskóla sem reknir eru sem ríkisstofnanir. Er þar einkum vísað til þess að stjórnsýsla ríkisins er lögbundin. Þannig verða í fyrsta lagi allar heimildir til fjárhagsráðstafana í ríkisrekstri að byggjast á lögum. Er hér bæði um að ræða framlög til lögbundinnar starfsemi og eins fjáröflun til annarra verkefna. Í öðru lagi verða ráðstafanir er varða réttindi og skyldur starfsmanna og nemenda að hafa bæði heimild og stoð í lögum og loks í þriðja lagi er við það miðað að megindrættirnir í skipulagi ríkisrekstrar séu ákvarðaðir af löggjafanum, m.a. hvað varðar skipun yfirstjórnar opinberra stofnana.

Meginmarkmið fyrirliggjandi frumvarps er því í samræmi við þau stefnumið sem sett voru með almennu lögunum um háskóla að tryggja að fagleg starfsskilyrði íslenskra háskóla verði þau sömu óháð rekstrarformi en að teknu tilliti til þeirra sérsjónarmiða sem um ríkisrekstur gilda.

Frumvarpið er samið af nefnd sem skipuð var til að endurskoða lög nr. 136/1997, um háskóla, ásamt gildandi sérlögum um starfandi ríkisháskóla. Nefndin skilaði frumvarpi til laga um háskólana í desember 2005 sem síðar varð að lögum, þessum rammalögum um háskóla sem nú gilda nr. 63/2006. Við undirbúning frumvarps þessa var nefndinni gert að taka mið af þeirri þróun og breytingum sem orðið hafa undanfarin ár á umhverfi opinberra háskóla í samanburði við þróun í öðrum OECD-ríkjum. Tillögur nefndarinnar skyldu vera til þess fallnar að samræma skilyrði og efla opinbera háskóla og gæði námsframboðs þeirra. Við gerð frumvarpsins sem unnið var í samstarfi við menntamálaráðuneytið hafði nefndin samráð við starfandi opinbera háskóla á Íslandi.

Meginefni frumvarpsins byggir að verulegu leyti á viðamiklu úttektarstarfi sem fram hefur farið innan íslenska háskólakerfisins á síðastliðnum árum. (Gripið fram í.) Þá hefur einnig verið tekið tillit til vinnu sem farið hefur fram innan háskólanna, m.a. tillagna á vettvangi Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands um tilhögun á fyrirhugaðri sameiningu skólanna. Og það er rétt sem hv. þingmaður kallar hér fram í, þetta er gott og skemmtilegt frumvarp því að við lítum fram á enn bjartari tíma á sviði háskólamála, sérstaklega þegar kemur að ríkisháskólunum.

Hæstv. forseti. Meðal þeirra úttekta sem litið var til við gerð frumvarpsins eru þrjár sem einkum varða Háskóla Íslands. Það eru úttektir sem við höfum nú rætt hér um á fyrri þingum og hafa orðið tilefni ýmissa umræðna.

Í fyrsta lagi er úttekt sem menntamálaráðherra fól Ríkisendurskoðun að gera á fjárhagsstöðu, fjármögnun, árangri, gæðum, rekstrarformi og stjórnsýslu HÍ. Skilaði Ríkisendurskoðun mér síðan úttekt sinni vorið 2005. Í öðru lagi fól ég fjögurra manna hópi árið 2004, undir forustu dr. Ingu Dóru Sigfúsdóttur, að taka út akademíska stöðu Háskóla Íslands. Tekur úttektin til rannsóknarstarfs við skólann á árunum 1999–2002. Skýrsla dr. Ingu Dóru og samstarfsmanna hennar var birt í september 2005. Í þriðja lagi átti Háskóli Íslands frumkvæði að því að Samtök evrópskra háskóla, European University Association, gerðu úttekt á skólanum þar sem lögð var sérstök áhersla á uppbyggingu framhaldsnáms og gæðastarf. Þessi úttekt er ekki liður í opinberu eftirliti með skólanum heldur var tilgangur hennar fyrst og fremst að fá ábendingar og ekki síður ráðleggingar frá hópi erlendra háskólamanna sem nýst gætu við framtíðaruppbyggingu skólans. Lokaskýrsla hópsins var birt í september 2005.

Enda þótt þessar úttektir hafi Háskóla Íslands að viðfangsefni beina niðurstöður þeirra skýru ljósi á ýmsa þætti í starfs- og rekstrarskilyrðum opinberu háskólanna allra. Á þetta sérstaklega við um skýrslu Ríkisendurskoðunar eins og nánar er lýst í almennum athugasemdum frumvarpsins. Virðulegi forseti. Ég mun nú gera nokkra grein fyrir meginefni frumvarpsins.

1. Sérlög um Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri munu falla brott verði frumvarpið að lögum og gert er ráð fyrir því í 1. gr. frumvarpsins að menntamálaráðherra birti auglýsingu um þá opinberu háskóla sem munu starfa samkvæmt lögunum.

2. Frumvarpið geymir tilteknar meginreglur um uppbyggingu og skipulag opinberra háskóla. Það einkennir frumvarpið að skólunum er veitt allmikið svigrúm til setningar reglna um nánari útfærslu á innra skipulagi sínu. Það er í rökréttu og beinu samræmi við það að við erum að efla hér sjálfstæði háskóla. Uppbygging frumvarpsins er því í anda rammalöggjafarinnar sem við höfum nú þegar samþykkt. Að þessu leyti er inntak frumvarpsins í fullu samræmi við þá almennu stefnumörkun, sem fram kemur í almennu lögunum um háskóla, að undirstrika sjálfstæði háskóla og að skapa þeim sem víðast svigrúm til athafna.

3. Hlutverk háskólaráða er betur skilgreint en áður og staða þess sem yfirstjórnar háskóla er styrkt. Ekki eru gerðar breytingar á meginhlutverki rektors, sem áfram er formaður háskólaráðs. Sjálf skipan í háskólaráð breytist á hinn bóginn verði frumvarpið að lögum. Í háskólaráði HA sitja nú fimm einstaklingar: rektor, sem er sjálfkjörinn í ráðið og er jafnframt forseti þess, tveir fulltrúar kennara, einn fulltrúi stúdenta og einn fulltrúi skipaður af menntamálaráðherra. Í háskólaráði HÍ, Háskóla Íslands sitja rektor, sem er sjálfkjörinn í ráðið og jafnframt forseti þess, fjórir fulltrúar kennara, einn fulltrúi samtaka háskólakennara, tveir fulltrúar stúdenta og tveir fulltrúar sem menntamálaráðherra skipar. Frumvarpið miðar við að meiri hluti háskólaráðs verði auk rektors skipaður tveimur utanaðkomandi einstaklingum sem valdir af menntamálaráðherra, auk fulltrúa nemenda og fulltrúa háskólasamfélagsins. Þessir fimm sækja sér síðan tvo fulltrúa til viðbótar sem ekki eru starfsmenn eða nemendur viðkomandi háskóla. Er með því verið að ná því markmiði að meiri hluti háskólaráðs sé skipaður af fólki sem er utan háskólans. Við val á utanaðkomandi fulltrúum skal hins vegar leitast við að tryggja sem víðtækasta þekkingu og reynslu háskólanum sérstaklega til stuðnings. Þátttaka og áhrif kennara og nemenda í skólaráðum er á hinn bóginn efld.

Ég vil vekja athygli þingheims á því að skólarnir fá öflugra hlutverk heldur en áður og sjálfstæði þeirra verður aukið. Þar af leiðandi má segja að starf skólaráðanna verði meira og að þau hafi í rauninni meira vald en núverandi stjórnir deilda.

4. Það nýmæli er í frumvarpinu að skólar eru skilgreindir sem meginskipulagseiningar í starfsemi háskóla. Með því verður til öflugt burðarlag í stjórnskipan skólanna sem getur verið farvegur og vettvangur fyrir margvíslega stoðþjónustu við kjarnastarfsemi þeirra, það er kennslu og rannsóknir. Tillagan um eflingu skóla er algjört lykilatriði í sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, samanber áform um sameiningu þeirra og almenna stefnumörkun Háskóla Íslands.

Ég vek athygli og minni hv. þingmenn á að þessir skólar munu sameinast núna 1. júlí 2008 og meginmarkmið þeirrar sameiningar er náttúrlega að gera kennaramenntunina enn öflugri.

5. Samhliða því að skólar verði að megineiningum í starfi háskóla verður til nýtt starf forseta skóla sem mun bera ábyrgð á fjármálum og rekstri sviðsins og þeirra stofnana sem undir það heyra. Gerð er tillaga um að starfsheiti þess sem ráðinn er æðsti yfirmaður skóla verði forseti til þess að undirstrika að hann fari með yfirstjórnarhlutverk ásamt rektor. Þó er háskólaráði heimilað að ákveða annað starfsheiti, telji ráðið af einhverjum ástæðum að það sé æskilegt. Í tillögunni felst að forsetar verði ráðnir af rektor að undangenginni auglýsingu. Forsetum er ætlað að vera akademískir leiðtogar skóla og hafa frumkvæði að útfærslu heildarstefnu háskóla á vettvangi síns sviðs. Til þeirra verða gerðar ríkar hæfiskröfur.

6. Skilvirkari stjórn opinberra háskóla er markmiðið. Ráðning forseta skóla, ásamt eflingu megineininga í starfseminni, felur í sér styrkari forustu, valddreifingu og möguleika á því að bæta stoðþjónustuna og þverfræðilegt samstarf. Með þessu er brugðist við ábendingum sem fram hafa komið um að stjórn opinberra háskóla þurfi að verða mun skilvirkari heldur en hún er nú.

7. Þá er rétt að geta þess að þess var ekki óskað af nefnd þeirri sem vann þetta frumvarp að hún fjallaði um fjárhagsmálefni háskóla. Ákvæði 24. gr. frumvarpsins, sem fjallar um fjárhagsmálefni, fela ekki á neinn hátt í sér grundvallarbreytingar á gjaldtökuheimildum háskóla. Þó er beinlínis gert ráð fyrir að einstakir háskólar geri tillögu til ráðherra um fjárhæð skrásetningargjalda. Fjárhæð þeirra verður þó eftir sem áður fastsett í lögum eins og nú er og breytingar á þeirri fjárhæð verði lagðar fyrir Alþingi af ráðherra, eins og verið hefur. Við setningu ákvæðisins hefur m.a. verið litið til athugasemda sem fram hafa komið hjá umboðsmanni Alþingis um heimildir til gjaldtöku.

Ég tel líka rétt að undirstrika það að í ljósi aukins sjálfstæðis skóla þá eiga náttúrlega háskólaráðin að hafa að minnsta kosti skoðun á því hver fjárhæðin eigi að vera.

Herra forseti. Ég leyfi ég mér að lokum að leggja til að frumvarpinu verði að umræðunni lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntamálanefndar.