Opinberir háskólar

Fimmtudaginn 17. apríl 2008, kl. 11:32:24 (6552)


135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[11:32]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á síðustu sjö árum hefur Háskólinn í Reykjavík fengið einn milljarð kr. úr ríkissjóði umfram það sem hann hefði fengið ef hann væri opinber háskóli. Hvers vegna? Vegna þess að það er pólitísk stefna hæstv. menntamálaráðherra að Háskólinn í Reykjavík fái meiri peninga á hvern nemanda en Háskóli Íslands.

Ef það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að ríkisháskólarnir standi styrkari fótum nú en nokkru sinni fyrr, spyr ég: Hvernig má það vera að aðrir háskólar þurfi miklu meira fé en þeir? Hvernig má það vera að á undanförnum árum hafi háskólaprófessorar haft miklar áhyggjur af þessari þróun? Háskólaprófessorar við Háskóla Íslands hafa komið niður í Alþingi og hitt þingflokka og gert grein fyrir áhyggjum sínum og í hverju þær fælust. Þær felast í því sem ég var að gera grein fyrir, að ríkið gerir öðrum háskólum kleift að yfirborga prófessora og kennara betur en ríkisháskólarnir geta, borga þeim hærra kaup, betri aðstæður og annað slíkt með þeim peningum sem ríkissjóður leggur fram í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það er skollaleikur, virðulegur forseti.

Þeir sem trúa á samkeppni verða þá að gæta þess að samkeppnin sé þannig að þeir sem keppi búi við sömu aðstæður. Það er engin samkeppni að binda annan með báðar hendur fyrir aftan bak og ætla honum að keppa í sundi við hinn sem hefur báðar hendur frjálsar.