135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:03]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir það innskot sem kom fram í andsvari hans eins og að umferðarspáin sem ég ræddi um varðandi Suðurlandsveginn er 2+2 miðað við umferðarspár til tíu ára og að við eigum ekki að tjalda til einnar nætur. Þetta er auðvitað hárrétt og þetta er það sjónarmið sem hefur verið haft í heiðri og fara á eftir og auðvitað er alltaf haft í heiðri líka að nýta peningana sem best til að fækka slysum á köflum. Ef ég heyrði rétt talaði hv. þingmaður um kaflann frá Selfossi til Hveragerðis og bara til að segja það hér vegna umræðu að það er sá kafli sem Vegagerðin og allir voru sammála um að kæmist sem fyrst í framkvæmd en jafnframt er hafin vinna við umhverfismat við kaflann frá Hveragerði að Selfossi.

Ég vil líka fá að minna á að þau sveitarfélög sem hafa verið að kalla á þessa framkvæmd eru núna fyrst að skila skipulagi á þessu svæði og hafa komið sér saman um hvernig það á að vera, þó svo að til mín hafi komið aðilar sem hafa rætt um aðrar leiðir eftir að sú niðurstaða var komin fram. Þannig er þetta einfaldlega að sitt sýnist hverjum í þessum málum.

Ég ætla líka að segja það, virðulegi forseti, af því að hv. þingmaður talar um mislæg gatnamót og slíkt sem kostar mikla peninga að ég hef séð tölur sem komu m.a. frá fulltrúum íbúasamtaka í þriðja hverfi höfuðborgarinnar út af gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar eftir aðgerð sem þar var gerð. Ég hef séð tölur um umferðaróhöpp og slys eftir breytinguna og þar er stórkostlegur munur á og það er auðvitað miklu ódýrari framkvæmd en það sem verið er að tala um núna, mislægu gatnamótin, þriggja hæða og allt það. Sú aðgerð skilaði sér fullkomlega og hefur stórbætt ástandið þarna og fækkað slysum og er dæmi um góða framkvæmd.