Upplýsingar um launakjör hjá RÚV

Mánudaginn 21. apríl 2008, kl. 15:24:18 (6793)


135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

upplýsingar um launakjör hjá RÚV.

[15:24]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

(Gripið fram í: Segðu já, segðu já.) Hæstv. forseti. Það er rétt að draga það fram að sú mikla rimma sem ég og hv. þingmaður, og reyndar fleiri þingmenn tóku þátt í varðandi Ríkisútvarpið ohf., var hluti af því að setja Ríkisútvarpið undir upplýsingalög. Hluti af því að gera stofnunina sjálfstæða var líka að stofnunin yrði sjálfstæð. Hún lýtur ekki boðvaldi eða yfirvaldi menntamálaráðherra.

Það var algjört lykilatriði. Eitt af því sem við sögðum var að við værum að klippa á þessa pólitísku eða meintu pólitísku strengi sem margir héldu að væri á Ríkisútvarpinu. Þess vegna segi ég: Það er forstöðumaður, útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins, sem fer með þetta mál og ég bendi líka hv. þingmönnum á að þeir einstaklingar sem vinna hjá Ríkisútvarpinu eru að sjálfsögðu ekki sviptir rétti sínum til að fara í mál ef þeir kjósa svo. (Gripið fram í: Stikkfrí. Stikkfrí.)