Opinberir háskólar

Mánudaginn 21. apríl 2008, kl. 16:44:28 (6817)


135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[16:44]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það liggur líka ljóst fyrir hver stefna okkar vinstri grænna er í skólagjaldamálum. Við höfum sömuleiðis samþykktir um þetta og þær eru á sama veg og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hefur gert grein fyrir um samþykkt landsfundar Samfylkingarinnar. Ég held því að efnislega séum við sammála um ekki eigi að taka upp skólagjöld.

Það sem við erum hins vegar að segja er það … (MÁ: Eru þá ekki allir ánægðir nema Siggi Kári?) Hv. þingmaður, nú er ég að svara andsvari hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur og ég ætla að fá frið til þess. Það sem við erum hins vegar að segja er að um þetta atriði eru ekki allir sammála. Það skilja ekki allir texta frumvarpsins og greinargerðarinnar með sama hætti. Við erum að benda á að við teljum að það sé opnað á skólagjöldin í opinberum háskólum með því sem þar segir. Ég veit raunar og þykist þess fullviss að ákveðnir þingmenn Samfylkingarinnar hafa áhyggjur af nákvæmlega þessu orðalagi og eru ekki alveg rólegir yfir því þó að þeir komi hér að sjálfsögðu í hlutverki stjórnarþingmanna og beri blak af frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra og orðalaginu þar. Þetta veit ég býsna vel. Ég ítreka enn og aftur það sem ég segi, við erum með þennan málflutning vegna þess að þau viðhorf og sjónarmið hafa komið upp í þessari umræðu bæði af okkar hálfu og ýmissa annarra úti í samfélaginu, m.a. í háskólasamfélaginu, að verið sé að opna á skólagjöld. Við viljum reyna að ná því fram að um það þurfi ekki að deila og að slík opnun verði örugglega ekki til staðar. Um það hljótum við að geta orðið sammála og þess vegna kalla ég eftir því að við förum í þann leiðangur til þess að allir geti unað glaðir við sitt.