Framlag Íslands til umhverfismála

Fimmtudaginn 08. maí 2008, kl. 10:55:56 (7260)


135. löggjafarþing — 101. fundur,  8. maí 2008.

framlag Íslands til umhverfismála.

[10:55]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég fagna því þegar erlendir fjölmiðlar fjalla um stöðu okkar í þessu máli með þeim hætti eins og þarna var gert. Það hafa margir aðrir fjölmiðlar verið að gera, sjónvarpsstöðvar, tímarit eins og National Geographic nú nýverið og margir aðrir, dagblöð og annars konar fjölmiðlar að undanförnu.

Á tímum hækkandi orkuverðs eins og við upplifum núna, þegar olíuverðið er komið upp í 120 dollara tunnan, er náttúrlega alveg ljóst að orkulindirnar verða æ verðmætari á sama hátt og matvælin sem við framleiðum verða verðmætari með hækkandi matvælaverði í heiminum.

Við höfum ótrúlega mikla möguleika og miklar auðlindir. Við eigum að spila úr þeim af skynsemi og í samvinnu við aðra eftir atvikum. En augu heimsins eru að opnast fyrir því sem hér hefur verið gert á undanförnum árum og áratugum og fagna ég því mjög að sú athygli skuli vera með svo jákvæðum hætti sem raun ber vitni.