Samráð um lífeyrismál

Fimmtudaginn 15. maí 2008, kl. 10:57:04 (7393)


135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

samráð um lífeyrismál.

[10:57]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Já, ég tel auðvitað mikilvægt að við gætum náð samstöðu um að leysa þetta mál. Í því sambandi minni ég reyndar á að það var lagt upp með það stuttu fyrir síðustu kosningar af hálfu Halldórs Ásgrímssonar, hygg ég, þegar hann var forsætisráðherra, að reyna að finna lausn í þessu máli. Þá strandaði sú lausn á því að ekki náðist samstaða á milli formanna stjórnarflokkanna um málið, (Gripið fram í.) m.a. vegna þess að sumir vildu, hv. þingmaður, og leyfðu mér að tala út, að sum okkar vildu einmitt ganga lengra og afnema þann tvöfalda rétt sem sumir fyrrverandi ráðherrar hafa núna og fá því tvöföld laun úr ríkissjóði. Við vildum ganga lengra í því efni en þáverandi forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson (Gripið fram í.) var tilbúinn til að gera.

Ég hef leitað mér lögfræðiálits á því að það sé hægt að fara inn í málin með þeim hætti sem við í Samfylkingunni höfum hugmyndir um og ég tel raunar mikilvægt að gera það vegna þess að það misbýður réttlætisvitund fólks að fólk fái tvöföld laun úr ríkissjóði. Ég tel mikilvægt að við reynum að leita leiða til þess að leysa málið á þeim nótum og ná samstöðu um þetta en það er ekki forsenda þess að hér séu gerðar breytingar í réttlætisátt á þessum lögum. Ef menn eru ekki tilbúnir til þess að koma að því máli að leiðrétta verstu skafankana á þessum lögum og færa þau í réttlætisátt (Gripið fram í.) verður auðvitað bara svo að vera og þá verða þeir sem það vilja bara að þvælast fyrir.

Ég tel ekkert að því að það fari fram orðræða um þetta mál á opinberum vettvangi frekar en um önnur mál. Samfylkingin hefur tvisvar tekið málið upp í þinginu, fyrst með frumvarpi sem Margrét Frímannsdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir fluttu, síðan með frumvarpi sem Valgerður Bjarnadóttir og fleiri þingmenn fluttu hér. (Forseti hringir.) Við höfum lengi staðið fyrir umræðu um þetta á opinberum vettvangi (Forseti hringir.) og það er engin ástæða til þess að við hættum því.