Frumvarp um sjúkratryggingar

Fimmtudaginn 15. maí 2008, kl. 14:06:25 (7456)


135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

frumvarp um sjúkratryggingar.

[14:06]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þetta mál var tekið upp áðan á vettvangi þingflokksformanna. Þar var leitað upplýsinga eftir fordæmum sem hér var vísað í fyrr í dag af hv. þm. Ástu Möller, formanni heilbrigðisnefndar.

Mér skilst að til séu fordæmi frá tímum efnahagsnefndar þegar Vilhjálmur Egilsson var formaður og þá séu líklega fleiri en eitt fordæmi — við vitum ekki hvað mörg. Ég trúi ekki öðru en þau séu afar fá — fyrir þessu vinnubrögðum af því þetta eru algjörlega óeðlileg vinnubrögð. Það kom reyndar ekkert fram hvort þáverandi formaður nefndarinnar, Vilhjálmur Egilsson, hefði haft samráð við aðra nefndarmenn þannig að við vitum það ekki. En það er sjálfsagt hægt að grafa þetta upp.

Ég vil mótmæla þeim vinnubrögðum að hv. formaður heilbrigðisnefndar sendir mál til umsagnar áður en málið er komið til nefndar. Ég tel að við eigum að taka málið af dagskrá og (Forseti hringir.) fara yfir þessi vinnubrögð. Það er ekki bjóðandi nefndum að starfa svona eða (Forseti hringir.) að formenn nefnda starfi svona, virðulegur forseti.