Frumvarp um sjúkratryggingar

Fimmtudaginn 15. maí 2008, kl. 14:12:59 (7461)


135. löggjafarþing — 103. fundur,  15. maí 2008.

frumvarp um sjúkratryggingar.

[14:12]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er nú, ég veit ekki hvort ég á að segja, ys og þys út af engu. En mér finnst kannski fulllangt gengið. Hér er ekki verið að vinna eftir þingsköpum. Það sem hér er í gangi er (Gripið fram í: Nú?) það að hv. þingmaður sendir út og óskar umsagnar. Þá hlýt ég að spyrja. Það er ekkert óeðlilegt að spyrja. Menn mega ekki rugla saman formi og efni í þessu. Hvaða tjón hefur þinginu verið valdið við að fjalla um málið? Ekki neinu. (Gripið fram í.) Málið verður á dagskrá í dag. (Gripið fram í.) Augnablik. Hvaða vald hefur verið tekið af nefndinni? Ekki neitt. Málið mun koma fyrir nefndina. Nefndin mun velja sér umsagnaraðila og senda málið út þannig að í raun hafa engin réttarspjöll verið unnin og ekkert tjón unnið á málsmeðferðinni. Það eina sem hugsanlega má finna er að það hefði verið betra að það hefði verið samráð við nefndarmenn um þessa útsendingu.(Gripið fram í.) Ekkert tjón hefur verið unnið á málinu og (Gripið fram í.) það verður tryggt (Gripið fram í: Þú meinar þetta ekki.) að Alþingi mun fá tækifæri (Forseti hringir.) til þess að fjalla um það í nefndinni alveg eins og þingsköp kveða á um. (Forseti hringir.) En hins vegar getur stjórnarandstaðan (Forseti hringir.) ólmast hér út af einhverju öðru tilefni. (Gripið fram í: Er einhver ... í gangi hérna?)