Heimsmarkaðsverð á olíu

Miðvikudaginn 21. maí 2008, kl. 13:47:45 (7570)


135. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2008.

heimsmarkaðsverð á olíu.

[13:47]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hreyfir mjög alvarlegu og mikilvægu máli sem er að setja svip sinn ekki bara á þjóðarbúskap okkar heldur á alþjóðleg efnahagsmál út um allt, efnahagsmál í öllum löndum.

Ef það verður svo að olíuverð hækki upp í 150 eða jafnvel í námunda við 200 dollara á næstu mánuðum þá er verulega illt í efni mjög víða. Við þurfum að horfast í augu við það og reyna að móta okkur áætlun um að bregðast við. Við erum reyndar svo heppin að við nýtum olíuna eingöngu til bílaflotans, fiskiflotans og annarra farartækja, flugvéla.

Hvað getum við gert? Það hefur enga þýðingu í þessu sambandi að hnika til gjöldum ríkisins upp á nokkrar krónur niður á við. Gjaldtakan á þetta er hvort eð er orðin innan við helmingur af útsöluverðinu. Það verður að fá fólk til að breyta hegðun sinni, fá fólk til að nýta aðra orkugjafa. Ríkisstjórnin mótaði fyrir nokkrum árum ákveðna stefnu sem hv. þingmaður vitnaði til. Ég var fjármálaráðherra þá þegar þetta gjald var lækkað um 240 þús. Í fyrra lagði ég fram í þáverandi ríkisstjórn tillögu um að ríkisstjórnin mótaði sér stefnu um að nýta sér vistvæn ökutæki og ég man ekki betur en vörugjöld t.d. á metanbílum hafi þá farið niður í 0 kr. Metan er innlendur orkugjafi sem við eigum að nýta í miklu ríkari mæli en við gerum í dag á bílaflotann. Við eigum að grípa til aðgerða til að hvetja til slíks.

Við eigum við öll möguleg tækifæri að reyna að draga úr notkun hinna innfluttu orkugjafa og spara notkun þeirra. Bæta nýtingu ökutækja og kaupa ökutæki sem nýta betur eldsneytið. Nýta frekar dísilolíu en bensín o.s.frv. Um þetta hlýtur allur þingheimur að geta (Gripið fram í.) sameinast — og sittu nú bara kyrr, hv. þm. Guðni Ágústsson.