Leikskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 12:57:41 (7684)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[12:57]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef verið fylgjandi því sjónarmiði að leikskólinn verði gjaldfrjáls og það hefur ekkert breyst, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er líka þess vegna sem minn flokkur, Samfylkingin, þar sem hann hefur tekið þátt í störfum á sveitarstjórnarstiginu, hefur sett þetta sem eitt af baráttumálum sínum og það er ekkert launungarmál. En það er skoðun mín að eins og staðan er í dag eigi umræða um þetta að fara fram hjá sveitarfélögunum og þar hefur hún líka farið fram.

Þegar Samfylkingin var í meiri hluta hér í Reykjavíkurborg þá hófst lækkun leikskólagjaldanna og átti að afnema þau í áföngum. Það hefur núna verið stoppað af nýjum stjórnvöldum í Reykjavík, geri ég ráð fyrir, og þykir mér það afar miður. Ég tel að þessi umræða og þessi ákvarðanataka, eins og staðan er í dag, eigi að fara fram innan sveitarfélaganna og ég treysti þeim til þess. Ég vona svo sannarlega og veit að Samfylkingin mun fylgja því stefnumiði eftir þar sem hún er í meiri hluta.

Það sem ég hef samt meiri áhyggjur af varðandi leikskólann er mönnunin, það er sá mönnunarvandi sem leikskólinn hefur þurft að stríða við. Ég hef meiri áhyggjur af því að í stærstum hluta þeirra er 30% starfsmannavelta og í heildina er meira en 20% starfsmannavelta í leikskólunum á ársgrundvelli. Ég hef miklu meiri áhyggjur af því máli og ég held að þeir lagabálkar sem við erum að samþykkja hér og nú og sú stefnumörkun sem er að verða til samhliða því, ég vona að hún eigi eftir að ýta undir og breyta því raunverulega stóra vandamáli sem leikskólinn glímir við núna. Hina umræðuna tel ég eiga heima, eins og staðan er núna, á sveitarstjórnarstiginu.