Leikskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 14:22:39 (7703)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[14:22]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir ánægjulegt að heyra það frá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur að hún hafi ekki gert upp hug sinn varðandi þá hugmynd að gera leikskólastigið gjaldfrjálst. Það er auðvitað stór ákvörðun að ákveða að styðja þau sjónarmið. Núna er það svo að kostnaður sveitarfélaganna vegna leikskólanna árið 2004, sem eru þær tölur sem ég veit nýjastar, mun hafa numið tæpum 12 milljörðum kr. Þar af koma á móti tekjur upp á 3,3 milljarða eða rétt um 28%. Við vitum alveg stærðirnar í þessu og við getum alveg ímyndað okkur hvaða stærðargráða þetta er sem sveitarfélögin og ríkið þyrftu þá að taka á sameiginlega.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum komið fram með hugmyndir um að útgjöld sveitarfélaganna vegna húsaleigubóta geti farið til ríkisins á móti og sveitarfélögin fái þá aukið svigrúm til þess að greiða til leikskólanna.

Ég er á þeirri skoðun að veruleg þörf sé á því að öll íslensk börn fái tækifæri til að fara í leikskóla. Ég held því fram að til séu börn á Íslandi sem fari ekki á leikskóla vegna bágs efnahags foreldra. Ég tel lykilatriði að hið samábyrga velferðarkerfi okkar taki á honum stóra sínum í þessum efnum og tryggi öllum börnum leikskólavist. Þá fyrst getum við farið að tala um alvörujafnrétti milli íslenskra barna.

Ég hvet hv. þingmann til að skoða vel þær hugmyndir sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum sett fram í þessum efnum og óska henni til hamingju með að hún skuli eiga eftir að gera upp hug sinn. Hún hefur þá tækifæri til þess að taka jákvæða og skapandi ákvörðun í þessu máli.