Grunnskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 18:36:48 (7745)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[18:36]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Frumvarpið byggist á því meginsjónarmiði og þeirri grundvallaráherslu að tryggja samfellu og aukinn sveigjanleika innan skólans sem og milli skólastiga.

Við sem stöndum að frumvarpinu, ráðherrann sem leggur það fram og nefndarmenn í menntamálanefnd a.m.k., svo að ég tali nú fyrir sjálfan mig, höfum ekki fundið fyrir neinum þrýstingi hvað það varðar að leggja eigi niður litla skóla. Ég hygg þvert á móti að meginþráðurinn í frumvarpinu sé sá, a.m.k. hef ég litið þannig á, að styrkja og efla grunnskólann og íslenska menntakerfið. Það markmið nær ekki bara til grunnskólanna hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það nær til alls grunnskólans um allt land.

Í þeim ákvæðum sem fram koma í frumvarpinu er tekið mið af þeim aðstæðum sem hv. þingmaður nefnir réttilega. Hægt er að lesa það út úr áliti nefndarinnar að menn eru reiðubúnir að horfa í gegnum fingur sér varðandi sérstakar aðstæður í þeim sveitarfélögum þar sem sjóðirnir eru ekki jafndjúpir og hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þar sem fólkið er færra og nemendur færri séu kannski ekki gerðar óeðlilegar kröfur til skólastjórnenda.

Engu að síður er það meginstefið í frumvarpinu að efla grunnskólann. Tryggja öllum nemendum grunnskólans toppmenntun. Tryggja þeim jafngóða menntun sama hvar þeir eru búsettir og sama hvernig þeir eru af guði gerðir, hvort sem þeir eru heilbrigðir, fatlaðir eða hafa einhver sérkenni. (Forseti hringir.) Ég tel að þessi þrýstingur sé ekki til staðar og við sem störfum í nefndinni munum berjast gegn slíkum þrýstingi.