Grunnskólar

Fimmtudaginn 22. maí 2008, kl. 20:05:38 (7748)


135. löggjafarþing — 106. fundur,  22. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[20:05]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera athugasemd við ræðu hv. 5. þm. Reykv. s., Kolbrúnar Halldórsdóttur, þar sem hún kemur inn á sjálfstætt rekna skóla. Ég vil fá að lesa, með leyfi forseta, það sem stendur í 43. gr.:

„Um slíka grunnskóla gilda sömu lög og reglur og um grunnskóla skv. 1. gr., eftir því sem við á. Þar á meðal skal af hálfu viðkomandi skóla fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga við töku ákvarðana sem kæranlegar eru skv. 47. gr.“

Í 1. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Lög þessi“ — og þá eru það þessi lög öll eins og þau leggja sig — „taka til grunnskóla á vegum sveitarfélaga, til sjálfstætt rekinna grunnskóla sem hlotið hafa viðurkenningu samkvæmt lögum þessum og til viðurkennds náms á grunnskólastigi. Skólar sem bjóða nám á grunnskólastigi nefnast grunnskólar.“

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vitnaði í ritgerð Hafdísar Gísladóttur um að hvað stjórnsýslulögin varðar standi nemendur í sjálfstætt reknum grunnskólum eða sjálfstætt reknum skólum ekki jafnt að vígi og nemendur í skólum sem reknir eru af sveitarfélagi. Ég tel að með 1. gr. sem vitnað er í taki öll lögin til þess. Það kemur mér verulega á óvart ef þau lög sem hér eru vernda ekki nemendur í sjálfstætt reknum grunnskólum með nákvæmlega sama hætti og nemendur í grunnskólum sem reknir eru af hálfu sveitarfélaga.