Framhaldsskólar

Föstudaginn 23. maí 2008, kl. 17:06:15 (7974)


135. löggjafarþing — 107. fundur,  23. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:06]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við verðum bara að eiga það að við erum ósammála um þetta. Ég held að það versta sem hægt er að gera varðandi þróun skólastarfs sé að negla allt saman niður eftir formúlu hv. þingmanns. Við verðum bara að vera ósammála um það.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að ekki er um neinn smáhóp að ræða. En ég mótmæli því að ekki hafi verið tekið tillit til þessa hóps. Ég endurtek það sem ég sagði áðan að ég tel (Gripið fram í.) — já, það er alveg rétt. Ég er ekki að endurtaka það að ekkert tillit hafi verið tekið til hans, heldur vil ég segja að mikið tillit hafi verið tekið til hans. Breytingartillögur meiri hlutans, nefndarálit meiri hlutans, taka gífurlega mikið tillit til þessa hóps og er að stærstum hluta til frá þessum hópi komið. Ég taldi það líka eðlilegt.

En ég tel það hins vegar ekki eðlilegt að einn hópur þó stór sé eigi einn að ráða. Það verður að nást samkomulag og það er skylda okkar að líta heildstætt á málið. Við hljótum að taka heildarhagsmunina fram yfir kannski (Forseti hringir.) eðlilega hagsmunabaráttu einstakra stéttarfélaga.