Breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði

Mánudaginn 26. maí 2008, kl. 11:12:24 (8017)


135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:12]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir að það fer eitthvað fram sem venjulegum stjórnarandstöðuþingmönnum er hulið í störfum stjórnarmeirihlutans. Það var einfaldlega ekki upplýst í nefndinni að ráðherrann eða ráðuneytið stæðu í viðræðum við Hitaveitu Suðurnesja um þetta mál og komu þó á fund nefndarinnar fulltrúar stærstu eigendanna og forstjóri fyrirtækisins. Ég tel, og það kom skýrt fram hjá Karli Axelssyni á fundum nefndarinnar, að það væri leið til að láta þetta frumvarp ná til allra aðila, líka Hitaveitu Suðurnesja. Ég tel að eftir þessi orð ráðherrans — og nú vil ég spyrja hvort hann hafi um það rætt við Hitaveitu Suðurnesja og hvort hann er þá ekki tilbúinn til þess þegar málið verður tekið aftur inn í nefnd milli 2. og 3. umr. að það verði skoðað að breyta frumvarpinu með tilliti til þess.