Breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði

Mánudaginn 26. maí 2008, kl. 11:55:05 (8036)


135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[11:55]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil alveg endilega að raforkan á Íslandi sé seld eins dýrt og hægt er. Ég vil það og ég veit ekki betur en við höfum verið að vinna að því. (Gripið fram í: Af hverju ertu …?) Ég hef ekki nokkra einustu athugasemd við það. Það er ekki í mínum höndum að gera það.

Enn og aftur er hv. þingmaður sérstaklega upptekin af þessum tveimur orðum, Bitra og dvali, í máli mínu áðan. Ég er að reyna að segja það, og ég ætla að segja það í þriðja sinn, að auðlindir geta verið dýrmætar út frá mörgum sjónarmiðum. Ég er alveg sammála því. Það getur vel verið að við munum finna aðrar leiðir í framtíðinni til að gera ýmislegt. Ég held að ég hafi líka tekið það fram í ræðu minni að við þurfum að passa upp á auðlindirnar. Ég held að ég hafi meira að segja tekið það fram nokkrum sinnum að við þurfum að gera það. Þarna erum við, ég og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, ósammála og ég hugsa að ég sé ósammála vinstri grænum í þessu. Ég ekki sammála því að með því að gera hlutina skynsamlega séum við búin að skemma allt, ég er ekki sammála því. Þarna skilja leiðir að þessu leyti.

Varðandi REI-málið þá hefur skoðun mín eindregið verið sú að það sé óheppilegt að blanda saman þáttum sem lúta einkaleyfi þar sem íbúar Reykjavíkur geta ekki snúið sér til neins annars til að kaupa heitt vatn en Orkuveitu Reykjavíkur, þá finnst mér óheppilegt ef það væru einhverjar áhyggjur af því að þeir fjármunir væru nýttir í aðra hluti. Ég er ekki að segja að það hafi verið gert, það voru áhyggjur af því og í mínum huga var það nóg. Ég geri athugasemdir við það. Ég er hins vegar ekki svona hrædd við fjármagn úr öðrum áttum. Þar erum við líka ósammála, ég og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir.