Breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði

Mánudaginn 26. maí 2008, kl. 12:47:29 (8046)


135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[12:47]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, nei, ég get glatt hv. þingmann með því að sjónarmið okkar eru algjörlega tvískipt hvað þetta varðar. Við lýsum fullum stuðningi við það meginmarkmið frumvarpsins að tryggja eigi að eignarhald auðlindarinnar sé í opinberri eigu. Þau ákvæði frumvarpsins viljum við að sjálfsögðu gera að lögum og teljum að það eitt sé hægt að gera án þess að gera breytingarnar hvað varðar fyrirtækin. Þetta er algjörlega skýrt í okkar huga. Annars vegar er þetta spurning um eignarhald á auðlindinni og við erum sammála þeim markmiðum sem eru til staðar um það í frumvarpinu en við teljum að hægt sé að bíða með annað og ég velti því líka fyrir mér hvort þarna sé ekki kominn meginágreiningur stjórnarflokkanna um málið. (KaJúl: Og bíða með …?) Það kann vel að vera að fyrirtækjaaðskilnaðurinn … Bíða með hvað? spyr hv. þingmaður. Það er fyrirtækjaaðskilnaðurinn sem hér er verið að leggja til að farið sé í sem við teljum að hægt sé að koma í veg fyrir. (KaJúl: … vatnalaganefnd?) Það kemur vatnalaganefndinni ekki nokkurn skapaðan hlut við, hæstv. forseti, en það kemur vatnalaganefndinni við að hér er verið að fjalla um eignarrétt á auðlindinni. Það skiptir máli að horfa á þetta heildstætt. Ef við ætlum bara að einbeita okkur að eignarréttinum í þessu frumvarpi þá skal ég bara kvaka og þakka og þá vona ég að hv. þingmaður og talsmaður Samfylkingarinnar í orkumálum geti orðið mér sammála um það þegar málið verður tekið aftur inn í nefndina á milli 2. og 3. umr. að hægt sé að fresta ákveðnum þáttum þessa máls.

Við skulum tryggja það að eignarrétturinn sé í almannaeigu og bíða með aðskilnað fyrirtækjanna, bíða með að opna á möguleikana á einkavæðingu fyrirtækjanna. Það hlýtur að vera hægt að greina þetta mál að. Ef það er ekki hægt skulum við bara setja þetta allt í eina allsherjarskoðun sem vatnalaganefndin, sem við báðar eigum sæti í, vinnur að. Við vitum að það er ærið verkefni, okkur nægir kannski sumarið til að komast að einhverri niðurstöðu í þeim efnum (Forseti hringir.) en kannski ekki.