Framhaldsskólar

Mánudaginn 26. maí 2008, kl. 17:53:04 (8120)


135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[17:53]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp til laga um framhaldsskóla. Ég vil taka fram að vinna við þetta frumvarp var ekkert öðruvísi en við frumvarp til laga um leikskóla og grunnskóla í nefndinni. (Gripið fram í.)Það var gríðarleg og mjög vönduð og mikil vinna sem þar var unnin. (Gripið fram í.) Að gefnu tilefni vil ég taka það fram, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, að í þessu frumvarpi er hvorki kveðið á um styttingu né skerðingu náms til stúdentsprófs. Það er verið að styrkja og efla stúdentsprófið, það er verið að auka frelsi og draga úr miðstýringu, það er verið að auka fjölbreytni í skólastarfi, það er verið að setja verk- og starfsnám jafnhliða bóknámi. Og síðan má nefna að þetta frumvarp er risavaxin tilraun til að berjast gegn brottfalli nemenda úr framhaldsskóla. Með hliðsjón af þessum markmiðum og öðrum sem koma fram í frumvarpinu finnst mér einkennilegt að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson og Kolbrún Halldórsdóttir leggi fram tillögu um að málinu verði vísað frá. (Forseti hringir.) Ég skora á hv. þingmenn að samþykkja þær breytingartillögur sem meiri hluti menntamálanefndar hefur lagt fram.