Breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði

Mánudaginn 26. maí 2008, kl. 23:41:07 (8169)


135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[23:41]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi ameríski leikari hét víst Michael J. Fox og lék í myndinni Aftur til fortíðar. En auðvitað geta menn haft martraðir gagnvart framtíðinni en það á ekki við um mig.

Ég vék hins vegar að gagnaflutningsnetinu og taldi að ríkið hefði átt að eiga hið minnsta meiri hluta í því á sínum tíma. Þar sem ríkið átti nú allt netið, eða eigum við ekki að segja allar leiðslurnar, ljósleiðarana í þessu tilliti, hefði átt að halda í þá eign. Ég segi það sama, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, varðandi Landsvirkjun og Landsnet að ég mun ekki greiða þeirri tillögu, svo fremi sem hún kæmi fram á þinginu, atkvæði ef ætti að fara að selja þau fyrirtæki. Það er bara mitt leiðarljós í því máli og ég hef komið því á framfæri. Einnig má segja að það er ekki til umræðu í þessu lagafrumvarpi í sjálfu sér. Mér finnst umræðan í dag svolítið hafa farið að snúast um að verið sé að gefa heimild á að selja í Landsneti, (Gripið fram í.) heimildin er auðvitað gefin í fjárlögum hverju sinni. Ég mun ekki veita því brautargengi, a.m.k. meðan ég er í fjárlaganefnd, að við séum að fara að selja Landsnet eða Landsvirkjun í þessum efnum. Ég held ég geti talað alveg fyrir munn allra í Samfylkingunni í þeim efnum, ég ætla ekki að tala fyrir munn Sjálfstæðisflokksins.

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka bæði meiri hluta og minni hluta iðnaðarnefndar fyrir góð störf undanfarnar vikur og mánuði. Ég veit að þetta hefur verið mjög erfitt og allir hafa lagt sig fram. Ég hef fylgst með umræðunni í dag bæði frá meiri hluta og minni hluta. Mér hefur fundist hún vera efnisrík og víðfeðm og greinilegt að hv. þingmenn eru búnir að setja sig vel inn í málin og geta þar af leiðandi sagt umbjóðendum sínum frá því þegar þeir eru spurðir.