Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Miðvikudaginn 28. maí 2008, kl. 14:56:06 (8317)


135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

539. mál
[14:56]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ég dreg ekki í efa gildi baráttu gegn peningaþvætti og ég dreg ekki í efa gildi og mikilvægi baráttu gegn raunverulegri hættu af hryðjuverkum. Hér vil ég á eftir fjalla almennt um hryðjuverkaógn þar sem hugtakið hryðjuverk ber á góma í allnokkrum greinum frumvarpsins 12. gr., 17. gr. og aftur í 18. gr.

Áður en ég held lengra með þetta vil ég sérstaklega vísa til 18. gr. og spyrja hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson um skilning hans á þeirri grein. Þar segir orðrétt, með leyfi frú forseta:

„Séu lög og reglur sem beinast gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka strangari í hinu erlenda ríki, þar sem útibú eða dótturfélag er staðsett, skal þeim fylgt.“

Það er litla sem enga leiðbeiningu að finna í umfjöllun um 18. gr. í greinargerð. Það er sagt að hér sé um nýjan málslið að ræða í 24. gr. þar sem komið er til móts við athugasemdir FATF og vísað til 379. töluliðar skýrslunnar og sagt að þessi tillaga þarfnist ekki frekari skýringar.

Ég átta mig ekki alveg á þessari grein og spyr nú fyrst og fremst hvort þetta nái líka til móðurfélagsins í þessu tilviki, hvort hægt sé að refsa íslensku félagi sem er með lögheimili á Íslandi eftir strangari löggjöf erlendis. Það má vera að hér sé um misskilning minn að ræða en a.m.k. finnst mér ákvæðið ekki algjörlega ljóst. Það skiptir máli hvort útibúið eða dótturfélagið sé staðsett þar eða skrásett þar eða eigi lögheimili á Íslandi o.s.frv.

Það hefur verið svo, frú forseti, að á undanförnum árum hafa verið sett fjöldamörg ákvæði sem er ætlað að vernda okkur fyrir hinni meintu hryðjuverkaógn og þar á meðal eru allmörg ákvæði sem ganga á skjön við mannréttindi, takmarka borgaraleg réttindi og mannréttindi einstaklinga. Hér á þessu þingi eru til umfjöllunar ein tvö eða þrjú frumvörp þess efnis, m.a. breyting á almennum hegningarlögum um hryðjuverk, mansal, peningaþvætti og fleira.

Þessi ákvæði má rekja til hörmulegrar hryðjuverkaárásar á New York 11. september 2001 án þess að vitað sé hverjir stóðu bak við þá árás eða hver var tilgangurinn með henni en sumir segja að hann hafi verið sá að ráðast gegn grunngildum þeirra styrku menningarheima í heiminum, bæði vestrænnar menningar og austrænnar í Asíu, Afríku og Bandaríkjunum.

Viðbrögð Bandaríkjanna og ýmissa Evrópuríkja bera þess merki að þessum, ég segi „fámennu“ hryðjuverkahópum hefur orðið býsna ágengt. Sárafáar undantekningar eru farnar að hafa áhrif á daglegt líf mikils meiri hluta Evrópubúa að minnsta kosti. Ég held því fram, frú forseti, að við eigum ekki að takmarka mannréttindi okkar og önnur grunngildi nema brýn skilgreind þörf sé fyrir hendi. Við eigum að viðhalda menningu okkar og mannréttindum, styrkja lýðræðið, styrkja mannréttindin, styrkja lýðræðið fremur en að guggna fyrir meintum hryðjuverkum.

Ég tek undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni um að meint hryðjuverkaógn á Íslandi hefur alls ekki verið skýrð. Það liggur ekkert fyrir um það. Það liggur ekki fyrir hættumat í þeim efnum og meðan svo er þá er það niðurstaða mín að það sé ótímabært að innleiða hert ákvæði í lög sem snúa að hryðjuverkum og fjármögnun þeirra. Það er vont að setja í lög ákvæði sem eru jafnmatskennd og óskilgreind og hryðjuverkin. Hversu víðtæka skilgreiningu hefur hugtakið? Til hvers nær það?

Hér á landi eru hryðjuverk sem betur fer óþekkt, get ég sagt. Áhættan er hverfandi lítil og það hefur verið sýnt fram á það og tölur sýna mjög glöggt fram á að Evrópubúum stafar meiri hætta af kynbundnu ofbeldi, umferðinni, óheilbrigðum lífsháttum, mengun og eiginlega flestu öðru en hryðjuverkum. Þegar maður leitar á evrópskum vefsíðum, síðum NATO og fleiri aðila, þá finnur maður engar tölur. Ekki neitt. Töluleg gögn um þessa hættu eru afar fátækleg og jafnframt upplýsingar um meint tjón. Gögnin sem maður leitar uppi staðfesta ekki þá meintu ógn sem þeim frumvörpum sem ég geri að umtalsefni er ætlað að bregðast við. Þau réttlæta það ekki að takmarka borgaraleg mannréttindi einstaklinga.

Ég held því fram að lýðræði og frelsi kosti fórnir og slíkar fórnir ættum við fremur að færa heldur en að farga þeim á grundvelli meintrar hryðjuverkaógnar byggðri á þessari skelfilegu árás í New York 11. september 2001 sem á sér sem betur fer vart hliðstæður í mannkynssögunni. Meintri hryðjuverkaógn er að mínu mati best svarað með því að styrkja lýðræði, mannréttindi og einstaklingsfrelsi borgaranna.

Ég vil upplýsa það, frú forseti, af því að mannréttindaákvæði bar hér á góma og því er neitað að það sé verið að ganga inn á þau, að í mars 2005 lýstu sérfræðingar mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem fylgst hafa með framfylgd alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi áhyggjum sínum af skilgreiningum íslenskra hegningarlaga á hryðjuverkum sem finna má í a-lið 100. gr. almennra hegningarlaga. Mannréttindanefndin telur að í ákvæðinu sé að finna óljósa og víðtæka skilgreiningu á hryðjuverkum sem gæti náð til lögmæts athæfis í lýðræðisþjóðfélagi og stefnt því í hættu og taka þar sérstaklega til þátttöku í opinberum mótmælum.

Nefndin mælist til þess, frú forseti, að Ísland móti og taki upp nákvæma skilgreiningu á hryðjuverkum. Undir þessi tilmæli tekur Íslandsdeild Amnesty International og undir þau tekur Mannréttindaskrifstofa Íslands. Af því tilefni vil ég leyfa mér að vísa í umsögn Amnesty International frá 17. mars 2008 um frumvarp til breytinga á hegningarlögum sem varða upptöku eigna, hryðjuverk, skipulagða brotastarfsemi, mansal og peningaþvætti. Með leyfi frú forseta er tilvitnunin svohljóðandi:

„Á undanförnum árum hefur í nafni baráttunnar gegn hryðjuverkum verið vegið að alþjóðlegri mannréttindavernd með mjög alvarlegum hætti. Amnesty International vill því taka skýrt fram og árétta að allar aðgerðir sem gripið er til í því skyni að koma í veg fyrir hryðjuverk verða að standast alþjóðlegar mannréttindakröfur og mega alls ekki grafa undan grundvallarréttindum sem áunnist hafa og réttarríkið byggist á. Amnesty International telur of mikinn vafa leika á hvort orðalag Evrópuráðssamningsins um varnir gegn hryðjuverkum og lagafrumvarps þess sem hér er til umfjöllunar standist þær kröfur. Amnesty International telur að ákvæði samningsins veiti ekki fullnægjandi tryggingu fyrir því að fólk verði ekki sótt til saka fyrir lögmæta andstöðu við stjórnvöld. Afar mikilvægt er að hugtakið „hryðjuverk“ fái ekki svo víða skilgreiningu í lögum að ekki sé greint með skýrum hætti á milli ólöglegra aðgerða og andstöðu við stjórnvöld sem er lögleg og varin af alþjóðlega viðurkenndum mannréttindareglum. Í þessu sambandi vill Íslandsdeild Amnesty International einnig vekja athygli á tilmælum Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá því í mars 2005. Sú nefnd hefur eftirlit með að ríki virði skyldur sínar samkvæmt alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Í tilvitnuðu áliti lýsti nefndin áhyggjum sínum vegna skilgreiningar íslenskra hegningarlaga á hryðjuverkum sem finna má í a-lið 100. gr. laganna. Í áliti nefndarinnar kemur fram að í ákvæðinu sé „að finna óljósa og víðtæka skilgreiningu á hryðjuverkum, sem gæti náð til lögmæts athæfis í lýðræðisþjóðfélagi og stefnt því í hættu, einkum þátttöku í opinberum mótmælum“. Íslandsdeild Amnesty International telur að fyrirhugaðar breytingar á 100. gr. samræmist ekki áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og áréttar mikilvægi þess að íslensk stjórnvöld fari að tilmælum hennar.“

Svo mörg voru þau orð. Það vekur sérstaka athygli mína, frú forseti, sem áhugamanns um jafnrétti og kvenfrelsi, hvaða áherslur ríkisstjórnin leggur. Hverju á að forgangsraða? Jú, baráttu gegn peningaþvætti og hryðjuverkum er forgangsraðað en aðrir þættir sem lúta sérstaklega að konum og lúta að tilmælum sem margsinnis hafa verð send okkur um að tryggja varnir gegn mansali og tryggja fórnarlambavernd og annað slíkt hefur ekki verið sinnt og er ekki sinnt. Kynbundið ofbeldi er stærsta heilbrigðisvandamál kvenna í heiminum, stærsta heilbrigðisvandamál kvenna í heiminum að mati sérfræðinga. Einnig á Íslandi, með því stærsta. Maður spyr sig: Af hverju forgangsraðar ekki ríkisstjórnin þar og ræðst gegn þessu heilbrigðisvandamáli, gegn kynbundnu ofbeldi, gegn mansali, tryggir fórnarlambavernd o.s.frv., fremur en að leggja megináherslu á hina efnahagslegu þætti? Fjárhagslega og efnahagslega þætti sem ég geri að sjálfu sér ekki lítið úr að þurfi að verja líka. En ég hefði varið þá á eftir.

Ég verð því að skora á ríkisstjórnina að breyta um áhersluröð í þessum efnum, leggja meiri áherslu á einstaklinginn og réttindi einstaklingsins, miklu meiri áherslu en á fjármagnið og viðskiptin.