Yfirlýsing frá forsætisráðherra

Miðvikudaginn 28. maí 2008, kl. 18:44:53 (8359)


135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

yfirlýsing frá forsætisráðherra.

[18:44]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Hvað Breiðavíkurbörnin varðar er það auðvitað eitt mál fortíðarinnar sem við skiljum ekki, þegar börn voru tekin af foreldrum sínum og send langt í burtu í vist. Því miður hefur þar eins og kannski víðar verið framið ofbeldi og hlutir sem við ekki heldur skiljum. Nú veit ég ekki hvort peningar bæta það allt saman. Mér heyrist á sumu af þessu fólki að afsökunarbeiðni geti verið mikilvæg frá stjórnvöldum dagsins í dag á því sem þarna gerðist. Peningar munu hins vegar kalla á að mörg mál verða rifjuð upp og átök myndast um mörg ágæt heimili önnur, spái ég, en við sjáum þetta mál betur í haust.

Hvað eftirlaunamálið varðar er ég sammála hæstv. forsætisráðherra um að setjast yfir það sem formaður í mínum flokki. Ég var ekki formaður á þeim tíma sem þetta gerðist og hér varð samkomulag á milli allra formanna stjórnmálaflokkanna á þeim tíma að gera þetta svona. Það var leitt til lykta í öllum þingflokkum og svo í gegnum þingið en málið sundraðist á þeirri leið. Þarna eru auðvitað hlutir sem menn vilja breyta í dag. Kannski er það nú svo þrátt fyrir allt, þegar við setjumst yfir þetta, að heilladrýgst verði fyrir þingheim að menn fjalli aldrei um launakjör sín, hvað þá lífeyri og eftirlaunakjör, sjálfir heldur feli kjararáði pakkann allan. Ég hygg að það gæti verið sú lausn sem mundi leysa okkur best frá þessu máli því að ég hygg að virðing Alþingis vaxi ef við fjarlægjum öll slík mál hvað laun og eftirlaunakjör varðar frá þinginu sjálfu en forsætisnefnd fari svo með kostnað af þessu starfi o.s.frv.

Ég lýsi því yfir að hæstv. forsætisráðherra hefur rætt þetta við mig sem formann í flokki og ég hef kynnt þingflokki mínum þau viðhorf og við munum sannarlega vera tilbúin til að setjast yfir þetta mál í sumar.