Sjúkratryggingar

Fimmtudaginn 29. maí 2008, kl. 14:15:23 (8489)


135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:15]
Hlusta

Ásta Möller (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er komið til atkvæðagreiðslu við 2. umr. frumvarp sem er rökrétt framhald af þeim lögum sem samþykkt voru á síðasta vorþingi, lögum um heilbrigðisþjónustu, og því frumvarpi sem varð að lögum um síðustu áramót varðandi verkaskiptingu á milli ráðuneyta.

Þetta frumvarp er jafnframt í fullu samræmi við stefnu beggja stjórnarflokkanna, að efla kaupendahlutverk heilbrigðisyfirvalda og ráðleggingar m.a. OECD og fjölmargra fræðimanna um að nýta hugmyndir um aðskilnað kaupenda og veitenda heilbrigðisþjónustu til að fá betri nýtingu á fjármagni til heilbrigðisþjónustu, betri skilgreiningu á þeirri þjónustu sem veita á og bætt eftirlit með þjónustunni. Ég hef trú á að það skref sem stigið er með þessu frumvarpi verði sjúklingum og fjölskyldum þeirra og íslenskri heilbrigðisþjónustu til heilla og muni þegar upp er staðið taka á ýmsum þeim annmörkum sem eru annars á góðri heilbrigðisþjónustu hér á landi.