Meðferð sakamála

Fimmtudaginn 29. maí 2008, kl. 23:57:43 (8612)


135. löggjafarþing — 114. fundur,  29. maí 2008.

meðferð sakamála.

233. mál
[23:57]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Þetta er mikilsvert frumvarp og mikill lagabálkur sem sannarlega hefði átt skilið að fá meiri umræðu en hér verður. Ég styð framgang þessa máls og ég vil hér nota tækifærið til að þakka formanni allsherjarnefndar fyrir gott vinnulag við vinnslu þessa frumvarps og meðnefndarmönnum mínum í allsherjarnefnd. Það má segja að það hafi að öllu leyti til fyrirmyndar hvernig að þessu var staðið. Orðið hafa á frumvarpinu mjög gagnlegar breytingar í meðförum allsherjarnefndar.

Það sem gerir mig kannski ánægðastan með þetta frumvarp er það vinnulag sem haft var við samningu þess. Réttarfarsnefnd hefur haft það til umfjöllunar í fjögur ár eins og fram kom hjá hv. formanni allsherjarnefndar. Það er vönduð vinna sem liggur að baki og er mikill munur á þessu frumvarpi og öðrum sem samin eru án lítils samráðs og hafa komið frá dómsmálaráðuneytinu.

Ég styð sem sé framgang frumvarpsins og réttarvörslukerfið kallar eftir því. Ég neita því hins vegar ekki að á því eru ákveðnir annmarkar sem ég hefði viljað breyta. Ég ætla ekki að eyða löngu máli í þá en ég verð samt að gera grein fyrir þeim.

Þessir ágallar snúa fyrst og fremst að því að ég tel að í frumvarpinu séu mannréttindin á stundum ekki látin njóta vafans. Þar vil ég nefna til sögunnar 69. gr. frumvarpsins þar sem heimild er til að leggja hald á hluti án dómsúrskurðar og það sé síðan það sem handlagningin beinist að, að leita til dómara til að fá staðfestingu á því.

Ég tel að engin réttarspjöll yrðu þótt leitað yrði úrskurðar í þessum tilvikum því að lögreglan hefur önnur úrræði þar, m.a. að loka vettvangi og þar fram eftir götunum, og dómarar eru tiltækir um allt land og vinna 24 tíma vaktir. Þeir eru á bakvakt allan sólarhringinn. Hið sama gildir um 75. gr., að hægt sé að leita á manni án dómsúrskurðar, og síðan á sá sem hagsmuna á að gæta að leita sjálfur til dómstóla með málið. Auðvitað er honum tryggð þá gjafsókn og annað slíkt. En ég minni á í þessu samhengi að það er hægt að handtaka mann og halda honum í 24 tíma og innan þess tíma er hvarvetna á landinu unnt að leita dómsúrskurðar. Þarna njóta mannréttindi að mínu mati ekki vafans.

Ég geri líka athugasemdir við lokamálsgrein 77. gr. og ég geri athugasemdir við 77. og sérstaklega 78. gr. um líkamsleit án úrskurðar. Þar eru sömu rök og ég hef hér fært fram. Ég tel ákvæði 82. gr. of opin og ég get svo sem talið lengur.

Ég hef engu að síður ákveðið að gera ekki breytingartillögur við þetta frumvarp en áskil mér rétt til að koma fram með þær síðar. Þó hef ég gert eina smávægilega breytingu við 90. gr. Hún heimilar lögreglu þar sem verða uppþot eða fjölmennar óeirðir að handtaka hinn seka. Lögreglu er jafnframt heimilt að handtaka hvern þann sem nærstaddur er og ástæða er til að gruna um refsiverða háttsemi. Þetta tel ég allt of víðtækt ákvæði og gæti jafnvel leitt til þess að vegfarandi á leið fram hjá óeirðastað yrði handtekinn. Ég hef bætt fyrir framan orðið „ástæða“ í 2. mgr. 90. gr. „rökstudd“ ástæða.

Tímans vegna læt ég þetta nægja um frumvarpið að sinni. Ég á eflaust eftir að fjalla um það síðar. Ég ítreka að öðru leyti stuðning minn og þakkir til refsiréttarnefndar og allsherjarnefndar fyrir framgöngu þeirra í málinu.