135. löggjafarþing — 114. fundur,  30. maí 2008.

tæknifrjóvgun.

620. mál
[00:29]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs skrifuðum undir þetta nefndarálit og styðjum það. Við gerðum það einnig í vetur þegar verið var að vinna að vönduðu frumvarpi um stofnfrumur og stofnfrumurannsóknir. Ég tel að þar hafi nefndin lagt sig fram um að fara vel yfir málið og þá kom fram mikill áhugi hjá nefndinni að hraða frekari breytingum á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna með síðari breytingum, eins og það heitir — langt nafn á því frumvarpi en það var það atriði sem snýr að tæknifrjóvgun einhleypra kvenna. Ég tel að flestir hafi orðið varir við að sá áhugi hefur verið vaxandi úti í samfélaginu hjá þessum hópi kvenna að hafa möguleika á að eignast barn með þessum hætti.

Nefndin fór ekki út í það að vinna málið sérstaklega þar sem nefnd var að störfum, eins og kom fram hjá hv. formanni heilbrigðisnefndar þegar hún gerði grein fyrir nefndarálitinu hér áðan. Ég fagna því að það náðist þó fyrir þinglok að dreifa frumvarpinu og afgreiða það. Ég vil árétta og ítreka að í málum sem þessum, þetta er viðkvæmt málefni, þarf að gæta vel að réttarstöðu barna sem verða til með þessum hætti. Nefndin hafði ekki möguleika á þeim stutta tíma sem hún vann með málið að kalla til fulltrúa frá Tilveru, sem er félagsskapur kvenna sem eru í þessari stöðu.

Ég tel að þetta sé enn og aftur áminning til okkar hér á hv. Alþingi að stuðla að því með öllum ráðum að vinna að málum með meiri fyrirvara en þetta þannig að tími vinnist til þess að fara vel yfir málin. Það er ástæðulaust að fara í svo viðkvæmt mál og hugsanlega að yfirsjást atriði sem ekki væri ef maður gæfi sér betri tíma. Ég vona og trúi því að nefndin sem vann að frumvarpinu hafi haft þann tíma sem hún þurfti og við styðjum þetta mál heils hugar.