135. löggjafarþing — 114. fundur,  30. maí 2008.

lyfjalög.

464. mál
[00:51]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil gera grein fyrir atkvæði mínu þegar komið er að breytingartillögu á a-lið í þessari grein. Hér er verið að greiða atkvæði um hvort selja megi nikótínlyf sem ekki eru lyfseðilsskyld í öðrum verslunum en lyfjabúðum. Nikótín er sterkt fíkniefni og er sala og dreifing þess í lyfjaformi því vandmeðfarin eins og segir í nefndaráliti. Það er mjög gott aðgengi að nikótínlyfjum í dag og ég tel að með því að auðvelda söluna og bæta aðgengið, þótt þetta sé með veikustu skömmtunum eins og breytingartillagan gerir ráð fyrir, muni það eftir sem áður auka neyslu á nikótíni og er hún þó ærin fyrir.