Sjúkratryggingar

Þriðjudaginn 09. september 2008, kl. 21:16:51 (9009)


135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[21:16]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er vel við hæfi þegar farið er að líða á tíunda tímann að kvöldi að við séum þá kannski að komast að kjarna málsins, þ.e. fjárveitingum til heilbrigðisþjónustunnar í gegnum fjárlög. Við skulum ekki gleyma því að hvaða bókhaldsbreytingar sem gerðar verða á fjármögnun heilbrigðisstofnana í landinu þá er reiknað með því að það verði Alþingi áfram, fjárveitingavaldið, sem leggur til peningana.

Það hefur nokkuð verið minnst á það í dag að frumvarpið sem slíkt taki alls ekki á þeim raunverulega vanda sem heilbrigðisþjónustan býr við. Eins og bent var á í andsvari á undan hafa heilu stofnanirnar verið í jafnvel áralöngu fjársvelti og hv. þm. Guðbjartur Hannesson lýsti reynslu sinni af því í gegnum ein fjárlög og fjáraukalög hvernig þar þarf alltaf að hlaupa undir bagga jafnvel þó að menn viti á árinu fyrir fram að fjárveitingarnar sem verið er að úthluta eru ónógar.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, sem er fulltrúi meiri hlutans í fjárveitinganefnd, hvort hann telji eins og hér hefur komið fram eðlilegt að ríkið borgi meira fyrir þjónustu einkaaðila á tilteknu sviði í heilbrigðisþjónustu til þess að bæta þeim einkaaðilum tvennt sem veldur hærri kostnaði í því kerfi. Annars vegar aukinn stjórnunarkostnað eins og hér hefur verið bent á og eftirlitskostnað frá ríkinu, og hins vegar arðsemiskröfu sem hér hefur verið nefnt að geti numið allt að 25% í þeirri verðbólgu sem hér geysar.