Nálgunarbann

Fimmtudaginn 11. september 2008, kl. 17:21:53 (9186)


135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

nálgunarbann.

294. mál
[17:21]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég vil undirstrika í seinna andsvari mínu er að ég held að allir þeir sem hafa tekið þátt í umræðum um málið séu þeirrar skoðunar að það beri að berjast gegn ofbeldi hvort sem það er kynbundið ofbeldi eða annars konar.

Ég vil líka undirstrika að við sem sitjum í allsherjarnefnd fengum viðvaranir frá héraðsdómara og hæstaréttardómara sem eiga sæti í réttarfarsnefnd. Ég held að ég geti fullyrt að þeir sem þar sitja þekkja manna best til þeirra réttarfarsreglna sem gilda á Íslandi í íslenskum rétti. Þegar þeir segja við okkur að hugsanlegt sé að breyting sú sem hér hefur verið talað fyrir, að færa ákvörðunarvaldið frá dómstólum til lögreglu, kunni að leiða til þess að málsmeðferðarhraði slíkra mála muni minnka, þ.e. að kerfið verði þunglamalegra, hljótum við að taka slík viðvörunarorð alvarlega. Þau koma frá mönnum sem eiga að þekkja hvað best til íslenskra réttarfarsreglna.

Ef þeir reynast sannspáir er betur heima setið en af stað farið ef slíkar tillögur leiða til þess að málsmeðferðartíminn lengist og kerfið verður þunglamalegra gagnvart þeim sem þurfa að sæta slíku ofbeldi. Við erum öll sammála um að það beri að reyna að vernda fórnarlömb ofbeldis hvort sem það er heimilisofbeldi eða annars konar ofbeldi en við verðum að gera það að vel athuguðu máli. Það er það sem við í meiri hluta allsherjarnefndar leggjum til.

Ég tel að með þeim tillögum og tilmælum sem fram koma í nefndarálitinu séum við að sýna í verki að við erum á móti ofbeldi. Ég tel að ef farið verður yfir þau mál sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur farið með í gegnum þingið á síðustu (Forseti hringir.) árum sýni það og sanni að ríkisstjórnin hefur lagt sig mjög fram við að berjast gegn því að menn komist (Forseti hringir.) upp með ofbeldi gagnvart öðrum.