Fjárlög 2008

Fimmtudaginn 04. október 2007, kl. 12:31:46 (81)


135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:31]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er af mörgu að taka í heilu fjárlagafrumvarpi, vilji menn kafa mjög djúpt í það. Ég ætla hins vegar í upphafi máls — mér finnst það eiginlega rétt við 1. umr. — að fjalla um þau mál sem sérstaklega snúa að grunni fjárlagafrumvarpsins. Ég vænti þess að hæstv. fjármálaráðherra hafi þolinmæði til að hlusta á mál mitt þótt nú nálgist hádegismat.

Hæstv. forseti. Í fjárlagafrumvarpinu segir undir fyrirsögninni Stefnur og horfur, með leyfi forseta:

„Þótt aðhald í hagstjórn hafi aukist jafnt og þétt undanfarin ár hefur gangur efnahagsstarfseminnar verið meiri en búist var við þannig að verðbólga og viðskiptahalli hafa aukist tímabundið. Við lok núverandi stóriðjuframkvæmda er gert ráð fyrir viðsnúningi í eftirspurn og utanríkisviðskiptum. Hagvexti er spáð að vera hóflegur á komandi árum ásamt meira jafnvægi í erlendum viðskiptum og lægri verðbólgu.“

Í ræðu minni í gær í utandagskrárumræðu um efnahagsmál vakti ég máls á skrifum Björns Rúnars Guðmundssonar hagfræðings sem er forstöðumaður greiningardeildar Landsbanka Íslands. Hann lýsir því að efnahagsstefnan beri öll merki mikilla umsvifa. Mér finnst mestu skipta, hæstv. forseti, við 1. umr. um undirstöður fjárlaga 2008, en framhald ræðu minnar mun fjalla um það efni, að við áttum okkur á því hvort forsendurnar fyrir fjárlagafrumvarpinu eigi við rök að styðjast.

Í grein sinni segir Björn Rúnar Guðmundsson þetta, með leyfi forseta:

„Engum dylst, sem hér hefur fylgst með þróun þjóðfélags- og efnahagsmála, hversu gífurleg breyting hefur orðið á samsetningu mannfjöldans á síðustu árum. Í upphafi hagsveiflunnar árið 2002/2003 voru 10.200 útlendingar búsettir hér á landi og þar af var stór hluti starfandi í fiskvinnslu. Í júlí síðastliðnum var talan 21.200 og hlutur útlendinga í vinnuaflinu var kominn í 10% sem er býsna hátt á alþjóðlegan mælikvarða. Tölur um fólksfjölda bera þessari breytingu einnig vitni og hefur þjóðinni fjölgað hlutfallslega meira í þessari uppsveiflu en dæmi eru um í langan tíma.

Að baki þessari þróun býr að sjálfsögðu mikil eftirspurn eftir vinnuafli vegna mikilla umsvifa í efnahagslífinu. Ekki aðeins eru umsvifin mikil, þau beinast í ríkum mæli að atvinnugreinum þar sem vinnuaflsnotkun er tiltölulega mikil eins og t.d. í byggingaiðnaði og tengdum iðngreinum. Á sama hátt hafa hækkandi ráðstöfunartekjur aukið eftirspurn eftir þjónustustarfsemi af ýmsum toga sem erfitt hefur verið að manna með innlendu vinnuafli.

Þessi alþjóðavæðing á vinnumarkaði, sem hér hefur átt sér stað, er á engan hátt bundin við Ísland. Þvert á móti má sjá þessi einkenni víðast hvar í iðnríkjunum í kjölfar aukins frelsis og hratt vaxandi alþjóðavæðingar og hafa íslensk fyrirtæki lagað sig að þessum nýju aðstæðum með miklum hraða. Í síðustu hagsveiflu, sem lauk árið 2002, mátti greina sterk áhrif innflutts vinnuafls, sérstaklega í byggingaiðnaði á árunum 1999–2000 þegar þenslan var í hámarki. Þegar síðan dró úr efnahagsumsvifum á árunum 2001–2003 hægði verulega á innstreymi erlends vinnuafls.

Nú er útlit fyrir að annað verði upp á teningnum. Í fyrsta lagi virðist sem eftirspurn eftir vinnuafli verði áfram mikil þó að umfangsmestu framkvæmdunum í tengslum við stóriðjuna sé um það bil að ljúka. Hagspá Landsbankans fyrir næstu þrjú ár gerir ráð fyrir því að þegar á næsta ári aukist fjárfesting á nýjan leik eftir mikinn samdrátt á þessu ári. Ekki aðeins er reiknað með áframhaldandi stóriðjuframkvæmdum heldur liggur fyrir að fjárfesting í íbúðarhúsnæði verður áfram mikil auk þess sem umfangsmiklar opinberar framkvæmdir standa fyrir dyrum.“

Við höfum rætt þetta í þingsalnum, m.a. í gær í umræðum um efnahagshorfurnar. Síðan segir, í sömu grein:

„Þessu til viðbótar má nefna stór verkefni á vegum einkaaðila sem koma til með að standa yfir allt spátímabilið.“ — Það eru þau þrjú ár sem Landsbankinn spáir fyrir um. — „Það er því ekki að sjá að mikill samdráttur verði í vinnuaflseftirspurn á næstu árum heldur þvert á móti höfum við gert ráð fyrir því að árleg aukning vinnuafls á næstu tveimur til þremur árum verði áþekk og verið hefur síðustu tvö árin.

Hér birtast í raun samfélagsleg og efnahagsleg umskipti sem Íslendingar hafa ekki upplifað áður. Svo virðist sem stór hluti, jafnvel meiri hluti, þeirra útlendinga sem hingað hafa komið hyggist taka hér upp fasta búsetu.“

Við skulum veita því athygli að þetta er talsmaður bankastofnunar sem væntanlega lánar mjög mikið til þess fólks sem kaupir sér íbúð. Hann getur lagt mat á eftirspurnina frá fyrstu hendi. Hann segir, með leyfi forseta:

„Eftirspurn eftir fasteignum og fjölgun barna af erlendum uppruna í skólum landsins bendir eindregið til þess að svo sé. Verði þetta raunin má líkja þessu við varanlega hliðrun á framboðs- og eftirspurnarhlið hagkerfisins í átt til aukinnar framleiðslugetu. Hvort breytingu af þessum toga fylgi jafnframt jákvæð framleiðniáhrif skal ósagt látið en óneitanlega kallar jafnróttæk breyting á grunngerð samfélagsins á töluvert rask á meðan hún gengur yfir.

Þjóðfélagsbreytingum af þessu tagi fylgja óhjákvæmilega mikil umsvif sem erfitt getur verið að aðgreina frá hefðbundinni hagsveiflu. Sennilega hafa áhrifin verið mest á fasteignamarkaði þar sem skortur á virkum leigumarkaði hér á landi kemur í veg fyrir að þeir sem koma nýir inn á markaðinn geti fundið sér tímabundna búsetu í leiguhúsnæði, þar til endanlega kemur í ljós hvort um fasta búsetu verður að ræða.

Hingað til hefur verið gengið út frá því að erlent vinnuafl hafi fyrst og fremst gegnt því hlutverki að milda áhrif uppsveiflunnar á vinnumarkaði og halda aftur af launaskriði, sérstaklega í byggingaiðnaði. Að lokinni uppsveiflu mundi þetta vinnuafl síðan hverfa af landi brott og áhrif þess að mestu fjara út og nýtt jafnvægi myndast í hagkerfinu. Nú virðist sem framvindan verði allt önnur. Í fyrsta lagi liggur nú ljóst fyrir að næsta stóriðjuuppsveifla er handan við hornið“ — allt annað en fram kemur í fjárlagafrumvarpinu — „og því ljóst að þörf fyrir aðflutt vinnuafl er áfram til staðar. Í annan stað þarf að reikna með áhrifum af því að stór hluti erlends vinnuafls taki hér upp fasta búsetu og ílendist hér til frambúðar. Slíkt kallar á ýmiss konar framkvæmdir, að hluta í samfélagslegum innviðum sem stjórnvöld verða að taka með í reikninginn.“

Að lokum segir Björn Rúnar Guðmundsson:

„Hin réttu hagstjórnarviðbrögð við þessum aðstæðum eru því ekki endilega aukið aðhald í peningamálum eins og ef um hefðbundna hagsveifluþenslu væri að ræða. Taka þarf með í reikninginn þá auknu framleiðslugetu sem þessum breytingum fylgja. Ákveðinn sveigjanleiki frá strangt skilgreindu verðbólgumarkmiði getur því verið réttlætanlegur við þær óvenjulegu aðstæður sem nú er við að glíma. Að þessu verða stjórnvöld, og þeir sem stýra peningamálunum, að huga við mótun hagstjórnar.“

Nú spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hvað skal nú segja, ráðherra góður? Greinarhöfundur er greinilega algjörlega ósammála hæstv. fjármálaráðherra um að úr þenslunni dragi á næsta ári og segir í raun hið sama og við í Frjálslynda flokknum sögðum fyrir síðustu alþingiskosningar, að auðvitað vildi fólk sem hingað kæmi í atvinnuleit setjast að og tryggja sér mikla vinnu og góð laun.

Ég geri ráð fyrir því, hæstv. forseti, að forstöðumaður greiningardeildar Landsbanka Íslands hafi eitthvað fyrir sér í þeirri skoðun sinni. Hann hlýtur að draga ályktanir sínar af því að menn sæki í lánsfé og e.t.v. er það ástæðan fyrir því að svo mikið er byggt á suðvesturhorninu. Hagfræðingurinn segir einnig að hagspá Landsbankans geri ráð fyrir að þegar á næsta ári sé reiknað með áframhaldandi stóriðjuframkvæmdum. Ríkisstjórnin gerir ekki ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu. Hann telur að fjárfesting í íbúðarhúsnæði verði mjög mikil á næsta ári sem og allt spátímabilið.

Lýsingin sem ég hef farið yfir er í algjörri andstöðu við það sem hæstv. fjármálaráðherra lýsir í fjárlagafrumvarpinu. Ég verð að segja eins og er, að mér finnst það mjög áhugavert, við upphaf umræðunnar, að fara vel og gaumgæfilega yfir það þessar forsendur. Við getum auðvitað tekist á um ýmislegt í fjárlagafrumvarpinu og málefnalega náum við oftast nær samstöðu um talsvert af þeim málum sem í fjárlagafrumvarpinu birtast. En það hlýtur að skipta máli að við 1. umr. fjárlagafrumvarpsins að við ræðum ofan í kjölinn hvort forsendurnar réttar. Þetta er væntanlega enginn aukvisi sem ég vitnaði í og hinir sjálfstæðu bankar, sem fara bara eftir markaðslögmálunum, hafa einnig lýst því yfir að þeir hafi nægjanlegt lausafé, svo mikið lausafé að þeir þurfi ekki einu sinni á langtímaláni að halda næsta árið til þess að viðhalda stöðu sinni.

Þegar bankinn spáir því að mikil þensla verði á byggingamarkaði allt næsta ár og út allt spátímabilið, sem í þessu tilfelli eru þrjú ár hjá bankanum, hvað sjáum við þá fram á? Við sjáum væntanlega fram á að þenslan verði keyrð áfram hér á suðvesturhorninu sem aldrei fyrr, það hlýtur að vera það sem við sjáum fram á. Það er hingað sem menn sækja í atvinnu, það er hér sem atvinnuframboðið er nægt. Við erum að taka niður atvinnu á landsbyggðinni. Við erum að taka niður afkomu í grunnatvinnuvegi landsbyggðarinnar, sjávarútveginum. Af þessum orðum er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að okkur þingmönnum beri að hafa verulegar áhyggjur af því hvað maðurinn segir. Mér finnst það algjörlega stangast á, hæstv. fjármálaráðherra, við það sem segir í fjárlagafrumvarpinu um stefnu og horfur til næstu ára.

Ef þenslan verður áfram til staðar mun viðskiptahallinn væntanlega verða meiri og að öllum líkindum mun verðbólgan verða hærri. Það mun þýða að lánsfé fólks til húsakaupa mun verða dýrara, lánin munu hækka, verðtryggingin mun sjá til þess. Þetta getur því haft mjög margar og slæmar afleiðingar. Ég óska því sérstaklega eftir því nú við hæstv. fjármálaráðherra að áður en lengra verði haldið geri hann okkur grein fyrir því, frekar en hann hefur gert í umræðunum í morgun, hvort hann telji að forsendur fjárlaga fyrir árið 2008 séu reistar á traustum grunni. Í þeirri stöðu sem nú er, annars vegar með fjárlagafrumvarpið og forsendur þess og hins vegar með nýútkomna þjóðhagsspá frá fjármálaráðuneytinu — að vísu segir neðst í þjóðhagsspánni að helstu óvissuþættir verði varðandi stóriðjuframkvæmdir, sem tilvitnaður greinarhöfundur fullyrðir að hefjist á næsta ári, ástand á fjármálamörkuðum og gengi og endurnýjun kjarasamninga sem standa fyrir dyrum. Það sem mér finnst kannski einna markverðasta fullyrðingin sem hann setur fram í þessari merku grein er að byggingamarkaðurinn muni áfram verða í fullu fjöri, ekkert lát sé þar á og ekki stefni í það. Ef það er rétt — og ekki getur maður dregið í efa það sem forustumenn bankanna segja — að þeir hafi svo mikið lausafé handa á milli að þeir séu ekki í neinum vandræðum á næsta ári jafnvel þó að þeir fái ekki endurnýjuð langtímalán eða endurfjármögnun, þá hljóta þeir að ætla að koma því fé í ávöxtun og lána það út. Ég held ég hafi tekið rétt eftir þegar ég hlustaði á ræðu hæstv. fjármálaráðherra í morgun þegar hann sagði: Markaðurinn fer oft sínar eigin leiðir. Efnislega held ég að hann hafi sagt það þó ekki sé það orðrétt. Ég get vissulega verið sammála honum um það. Bankamarkaðurinn fer sínar eigin leiðir og fjármálamarkaðurinn og ef húsbyggjendur hafa aðgang að því lánsfé sem mér sýnist að bankarnir muni bjóða og hafa vilja til að halda uppi þenslu á byggingamarkaði þá heldur þenslan áfram. Það er ekkert að sjá sem kemur í veg fyrir það. Það getur þýtt að verðbólgan verði hærri og viðskiptajöfnuðurinn óhagstæðari o.s.frv.

Í ritinu Stefna og horfur, sem fylgir fjárlagafrumvarpinu, segir í lokakaflanum um efnahagsstöðugleikann, með leyfi forseta:

„Meginniðurstaða fjárlagafrumvarps og langtímaáætlunar í ríkisfjármálum er að stöðugleiki ríki í efnahagslífinu þegar hratt dregur úr umsvifum vegna stóriðjuframkvæmda og samdráttur verður í innlendri eftirspurn. Við þær aðstæður er dregið úr aðhaldsstigi í ríkisfjármálum árið 2008 sem er í samræmi við markmið í efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar um stöðugleika í efnahagslífinu.“

Þetta er lokaniðurstaðan í þessum kafla.

Ég tel mig hafa fært fyrir því nokkur rök í máli mínu að ástæða sé til að hafa áhyggjur og við eigum að skoða þetta vandlega. Við erum að tala um grunn fjárlagafrumvarpsins og grunn stefnumótunar fyrir næstu ár. Ég ætla í þessari ræðu minni ekki að fara mikið inn í einstök atriði fjárlagafrumvarpsins. Ég ætla hins vegar að lýsa því yfir fyrir hönd míns flokks, Frjálslynda flokksins, að við höfum verið mjög hlynntir því að styðja við það sem við höfum kallað varanlegar samgöngubætur, varanlega vegagerð, jarðgöng, jarðgangagerð og styttingu akstursleiða milli landsvæða. Við höfum flutt um það mörg mál undanfarin ár og reyndar var þingsályktun um aukna áherslu á jarðgangagerð samþykkt og vísað til ríkisstjórnarinnar í vor. Ég vænti þess að hæstv. samgönguráðherra sé að skoða þau mál eins og annað sem lýtur að samgöngumálum. Ég bind við það vonir að áframhaldandi kraftur verði í því að koma okkur inn í nútímann að því er varðar vegakerfi landsins. Ég held að það séu mjög arðbærar framkvæmdir og eigi að setja þær fram yfir margt annað í verklegum framkvæmdum eða framkvæmdum sem ríkið vill ýta undir.

Velferðarmálin höfum við stutt á undanförnum árum og höfum þegar flutt mörg mál um bætta velferð ellilífeyrisþega og aldraðra. Að sjálfsögðu munum við í Frjálslynda flokknum samkvæmt venju styðja góð mál þegar þau eru á ferðinni hvaðan sem þau koma. Ég vænti þess að okkur í fjárlaganefndinni takist að vinna þessi mál vel. Ég mun leggja mitt af mörkum í því að vinna vel í fjárlaganefndinni með öðrum sem þar sitja. Við í Frjálslynda flokknum munum leggja áherslu á að hvað varðar skattalækkanir verði horft til þess að lækka persónuafslátt og jafna þar af leiðandi stöðu láglaunafólks. Það er í samræmi við þá stefnu sem við í stjórnarandstöðunni fluttum sameiginlega á síðasta hausti. Fleira mætti telja upp en fyrst og fremst hef ég áhyggjur af þeim grunni sem við erum að byggja á og bið því hæstv. fjármálaráðherra að fara um það nokkrum orðum. Það finnst mér skipta mestu máli nú í upphafi.