Notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli

Þriðjudaginn 09. október 2007, kl. 18:07:24 (285)


135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[18:07]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka bara meginmál mitt hér sem hv. þingmaður virðist skauta fram hjá að hlusta á vegna þess að sjálfsagt hefur hann verið í hópi þeirra sem vildu halda í herinn sem lengst. Ég ítreka það hversu ánægjulegt er að vera laus við herinn. Ég heyri að það er tregi í hv. þingmanni, enda var það eitt af meiriháttarkappsmálum fyrrverandi ríkisstjórnar að halda í herinn. Hún lagði allt í sölurnar til að halda í herinn og þess vegna vildi hún aldrei viðurkenna að hann væri farinn. Meira að segja, eins og hæstv. iðnaðarráðherra kom inn á, vildu menn ekki einu sinni fara og tékka á vatninu á húsunum því að þeir vildu ekki viðurkenna að herinn væri farinn. Þeir börðu þannig höfðinu við steininn. Hv. þm. Árni Johnsen skipar sér í þann hóp sem hefur ekki viljað viðurkenna það.

Það er virkilegt fagnaðarefni að herinn skuli vera farinn og sjálfsagt að reyna að nýta þessi hús en auðvitað verða þau að uppfylla íslensk byggingalög og byggingareglugerðir til að mega vera á markaði. Það er að minnsta kosti mín skoðun. Frumvarpið er flutt til þess að lagfæra megi raflagnirnar þannig að nota megi húsin. Þrátt fyrir að þessi fjallabaksleið sé farin, að flytja þurfi um það bráðabirgðalög sem á að heyra til undantekninga, og í ljósi þess hve ánægjulegt það er að herinn er farinn þrátt fyrir baráttu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til að halda honum, þá er meira að segja hægt að fagna því að hægt sé að nota þessi hús til annars og til borgaralegra nota, jafnvel þótt flytja verði hér bráðabirgðalög til að hægt sé að breyta raflögnunum í þá veru. Burt með herinn, komi hann aldrei aftur.