Sala áfengis og tóbaks

Þriðjudaginn 16. október 2007, kl. 16:40:45 (636)


135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:40]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var dálítið skrýtin ræða. Sumt get ég tekið undir, mjög fátt. Frekari forvarnir, betri kennsla o.s.frv. En ég hugsa: Ef sú kennsla verður í þeim einstrengingslega predikunartón sem einkenndi ræðu hv. þingmanns er ég ansi hræddur um að árangurinn yrði bara nákvæmlega eins og alltaf þegar verið er að predika yfir fólki og setja fram svart/hvíta-heimsmynd. Það leiðir yfirleitt til þess að menn snúast þversum, og þá sérstaklega unglingar.

Hv. þingmaður lýsti aftur og aftur í ræðu sinni ákveðnum veruleika og taldi hann mjög slæman, og ég tek undir það. Þetta er hræðilegur veruleiki en hann er til staðar með óbreyttum lögum. Ef við erum með baldinn óþekkan hund í bandi og höldum bandinu stuttu þá æðir hann út og suður og getur gert það í trausti þess að bandið sé stutt. En um leið og bandinu er sleppt verður hann að sýna ábyrgð. Ég hugsa að nákvæmlega hið sama eigi við um unglinga og fullorðið fólk. Ég skil ekki hv. þingmann, að hann skuli vilja hafa vit fyrir fullorðnu fólki í Vestmannaeyjum, sjómönnum og öðrum slíkum, hafa vit fyrir þeim vegna þess að hann viti betur en þeir hvað þeir eigi að drekka og hvað þeir eigi ekki að drekka og hvar þeir eigi að kaupa áfengið.

Við segjum: Við ætlum að líta á vín sem hverja aðra vöru, því að það er vara. Ég vil benda á að nú fjölgar offitusjúklingum. Ef þeim fjölgar nógu mikið ætlar þá hv. þingmaður að fara að banna rjóma, sykur, feitmeti o.s.frv., og halda áfram að banna af því að sumt fólk misnotar vöruna?