Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Fimmtudaginn 18. október 2007, kl. 14:31:33 (818)


135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:31]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra að það eru sannarlega grá svæði í þessu efni hvað varðar félagsmálin og heilbrigðismálin. Ég get upplýst það hér að ég hef um nokkurt skeið verið starfandi og er enn starfandi í verkefnisstjórn milli ríkis og sveitarfélaga þar sem verið er að ræða um flutning verkefna, bæði málefni fatlaðra og sömuleiðis málefni á verkefnasviði heilbrigðisráðuneytisins, þ.e. málefni aldraðra, og það hefur ítrekað komið fram í umræðum þar að þarna eru mörg grá svæði. Ekki er alveg ljóst hvað ætti að flytja frá ríki til sveitarfélaga þegar málefni aldraðra eru annars vegar vegna þess að sá málaflokkur er svo víðfeðmur í raun og veru. Hann snertir ekki bara þá þjónustu sem félagsþjónusta sveitarfélaga veitir eða hjúkrunarheimilin, þarna getur verið um að ræða mál eins og lífeyristryggingar sem er auðvitað stórt mál og ég geri ekki ráð fyrir að menn séu að tala um að flytja þau frá ríki til sveitarfélaga. Öll umræða um þetta mál er því svolítið út um víðan völl eins og sakir standa en ég fagna því auðvitað ef þetta verður eins og hæstv. forsætisráðherra segir hér, og ég trúi því, skýrt í frumvarpi sem hann mun væntanlega flytja að loknum kjördæmadögum.