Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Fimmtudaginn 18. október 2007, kl. 16:23:46 (842)


135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[16:23]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það hillir undir lok þessarar umræðu. Það eru einungis örfá atriði sem mig langar að tæpa á til viðbótar við þau sem hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa gert í umræðunni fram að þessu.

Það er alveg ljóst að það ber afar hátt í gagnrýni okkar vinnubrögðin í þessu máli og ég lít svo á að það væri ekki jafnþungt undir fæti hjá hæstv. forsætisráðherra með þetta mál ef hann hefði unnið þetta á öðrum nótum, ef hann hefði efnt til einhvers konar samráðs, ef hann hefði áttað sig á því og viðurkennt að við erum öll kjörin til að stjórna landinu. Þó svo að það hafi æxlast þannig að tveir stjórnmálaflokkar hafi myndað meirihlutaríkisstjórn þá höfum við öll miklar skoðanir á því hvernig skipa megi verkefnum í Stjórnarráðinu. Um það hafa allir stjórnmálaflokkarnir ákveðnar hugmyndir og er afar nauðsynlegt þegar um svo stórar og afdrifaríkar ákvarðanir er að ræða að menn praktíseri það sem þeir predika. Samfylkingin er auðvitað ábyrg í þessum málum líka því að hún hefur gengið fram fyrir skjöldu oftar en ekki og talað um samræður, nauðsyn samráðs og samræðna um stærstu mál sem smæstu. Þetta er dæmigert mál þar sem við hefðum þurft að koma öll að og allar hugmyndir okkar hefðu átt að koma saman í einn kraumandi, skapandi og skemmtilegan pott og við hefðum átt að taka okkur þann tíma sem nauðsynlegur er við þessar breytingar. Það er ekki til sóma á hvern hátt hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin leggur upp með þetta mál.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs erum í sjálfu sér mjög opin fyrir breytingum á Stjórnarráðinu. Í hugmyndafræði okkar eða stefnuriti um græna framtíð segjum við sem svo að skipan mála innan Stjórnarráðsins sé að mörgu leyti úrelt og við ræðum áherslubreytingar sem við viljum sjá þar hvað varðar fyrirkomulag, bæði hvað snertir fjármagn, og eins tæpum við á hugmyndum varðandi tilfærslu á verkefnum milli ráðuneyta. Þar tölum við algerlega tæpitungulaust og erum mjög afdráttarlaus í því hvað við viljum sjá og mig langar til að fara um það nokkrum orðum.

Við viljum sjá umhverfisráðuneyti sem sómi er að. Við viljum að umhverfisráðuneytið fái að vera hliðstætt fjármálaráðuneytinu í Stjórnarráðinu þannig að á sama hátt og fjármálaráðuneytið setur öðrum ráðuneytum ramma hvað varðar fjárheimildir setji umhverfisráðuneytið öðrum ráðuneytum ramma hvað varðar umhverfismál. Við teljum að á 21. öldinni sé kominn tími til að umhverfismálin móti stefnu stjórnvalda. Það geta þau gert með því að umhverfisráðuneytið sé hækkað í „hírarkíinu“ innan Stjórnarráðsins. Við teljum að efla þurfi umhverfisráðuneytið til muna og jafnframt að styrkja alla umsýslu og eftirlit með framkvæmd umhverfismála hjá einstökum fagráðuneytum og teljum raunar að þetta sé eitt af viðamestu verkefnum sem við þurfum að takast á við á 21. öldinni. Af því að við vorum að ræða loftslagsmálin fyrr í dag þá eru þau einmitt dæmi um mál og málaflokk sem öll ráðuneyti þurfa að taka alvarlega að brjósti sér, allir ráðherrar verða að vera jafnvirkir í því að fara með þann málaflokk en sá ráðherra sem setur merkið og setur rammann til að vinna eftir er og á að vera umhverfisráðherra. Ég tek loftslagsmálin sem dæmi um það sem við viljum sjá í þessum efnum og á hvern hátt við teljum verkefni umhverfisráðuneytisins þess eðlis að þau eigi að lita starf allra ráðuneytanna meira eða minna.

Við viljum sjá framsýna og nýja stefnumörkun í umhverfismálunum, stefnumörkun sem endurspegli bæði gjörbreytta stöðu og nýja sýn á umhverfismál. Við viljum að Stjórnarráðið viðurkenni nauðsyn á öflugu samráði og samvinnu við frjáls félagasamtök og almannasamtök varðandi málefni umhverfisins og við viljum tryggja það að stofnanir sem heyra undir ráðuneytið, stofnanir sem vinna á sviði umhverfismála, séu hærra settar í stjórnsýslunni en þær hafa verið hingað til.

Við höfum verið opin fyrir því að ræða breytingar á stofnunum umhverfisráðuneytisins. Við höfum ekki alltaf verið sammála stjórnarmeirihlutanum, t.d. þegar Umhverfisstofnun var búin til, það stóra batterí, þá vorum við ekki sammála þeim áherslum sem sú ríkisstjórn sem það gerði sýndi og við teljum að enn séu möguleikar á að brydda upp á skapandi umræðu um verkefni Umhverfisstofnunar og hvort eigi kannski að skipta henni upp og angi af þeirri umræðu er umræðan sem hefur komið upp hér um matvælamálin í dag.

Sömuleiðis getum við orðað rannsóknastofnanirnar sem eru að rannsaka lífríkið. Við þekkjum það öll að Náttúrufræðistofnun Íslands er rannsóknastofnunin sem rannsakar lífríkið í náttúru Íslands. Þó eigum við aðra rannsóknastofnun ekki síður öfluga sem líka rannsakar lífríkið og það er Hafrannsóknastofnun. Ég varpa fram þeirri hugmynd hér hvort það væri ekki hluti af þessari umræðu að við ættum kannski að skoða það hvort lífríkisrannsóknirnar sem Hafrannsóknastofnun stundar ættu að heyra undir öflugt og endurnýjað kraftmikið umhverfisráðuneyti.

Ég talaði um það í umræðu fyrr í vikunni að veiðarfærarannsóknir sem var verið að vekja athygli á að gætu skaðað lífríkið ættu kannski heima undir atvinnuvegaráðuneyti og þar með erum við komin að því að við Vinstri græn höfum verið opin fyrir því að ræða möguleikana á að stofna eitt öflugt atvinnuvegaráðuneyti. Með þessu er ég að segja að við öll, sama hvar í flokki við stöndum, höfum ákveðnar hugmyndir um á hvern hátt best sé að halda á málum varðandi breytingar á Stjórnarráðinu. Það hefði verið affarasælla fyrir ríkisstjórnina að fara af stað með samvinnu frekar en á þann hátt sem gert hefur verið hér. Ég vona einungis úr því sem komið er að farið verði að óskum hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar sem hóf máls á því í umræðunni fyrr í dag að tryggja yrði að fagnefndir þingsins fengju málið til umsagnar. Ég treysti því að orðið verði við þeirri beiðni því að þá getum við alla vega tekið þá umræðu sem nauðsynleg er í þingnefndunum þó svo að sá hængur sé auðvitað á málinu að eftir er afar lítill eða skammur tími fram að því þetta allt þarf að taka gildi svo við þurfum víst að bretta upp ermarnar. Þetta verður eitt af stærri þingmálunum á þessu þingi og menn eiga örugglega eftir að takast á um það í nefndum þingsins. Við vonum auðvitað að lendingin geti orðið farsæl en eins og til þess er stofnað óttast ég að hér geti verið mikil átök í uppsiglingu sem á endanum verði lent með valdi en ekki í sátt.