Lánasjóður íslenskra námsmanna

Miðvikudaginn 31. október 2007, kl. 13:57:04 (984)


135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

19. mál
[13:57]
Hlusta

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var aðeins léttara yfir hv. þingmanni í seinna andsvarinu sem veit vonandi á gott. En hv. þingmanni var tíðrætt um það hvað við ættum að vera búin að gera og hvað Framsóknarflokkurinn hefði lítið lagt af mörkum til menntamála. Ég hef reyndar farið yfir fjölmörg framfaraspor á sviði menntamála á síðustu tólf árum sem Framsóknarflokkurinn í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn beitti sér fyrir og kvíði þeirri umræðu ekki ef hv. þingmenn vilja fara út á þær brautir.

Hins vegar finnst mér hv. þingmaður vera að kasta grjóthnullungum úr glerhúsi þegar hann talar um stefnuleysi í þessum efnum og að menn hafi ekki framkvæmt hlutina. Hvað lagði Frjálslyndi flokkurinn til allt síðasta kjörtímabil í þessum efnum? Kom einhver tillaga fram frá Frjálslynda flokknum sem var þá í stjórnarandstöðu um að það ætti að bæta hag námsmanna með þessum hætti? Nei. Frjálslyndi flokkurinn hafði engan áhuga á því að leggja svona mál fram. Af hverju var ekki Frjálslyndi flokkurinn búinn að gera svona? Af hverju var ekki Frjálslyndi flokkurinn búinn að leggja fram svona frumvarp?

Við getum rætt í allan dag á sömu nótum og hv. þm. Grétar Mar Jónsson. En það er ekki þessu máli til framdráttar. Við eigum að einblína á það umræðuefni sem hér er til staðar og eigum að ræða málið sjálft en ekki að tala um fortíðina eða annað slíkt.

Við þurfum að koma þessu máli í gegn og til þess þarf uppbyggilega umræðu innan þings og úti í samfélaginu. En ef umræðan hér innan þings ætlar að þróast með þeim hætti sem hún er að gera hér í upphafinu þá getum við ekki ætlast til þess að umræðan úti í samfélaginu verði með neitt glæsilegum hætti um þetta mál, því miður.