Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 01. nóvember 2007, kl. 19:50:45 (1129)


135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

stjórn fiskveiða.

25. mál
[19:50]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, hún var að mörgu leyti athyglisverð. Ég ætla ekkert að munnhöggvast við menn þó að þeir hafi aðra skoðun en ég á ástandi fiskstofna. Það metur hver fyrir sig og allir reyna að sjálfsögðu að leggja til reynslu sína og mat á því eins og þeir skynja veruleikann á hverjum tíma.

En hitt er líka rétt, sem hv. þingmaður sagði, að þegar grein hans birtist var mikil fiskgengd á vertíðarmiðum við Ísland. Svo mikil meira að segja að aldrei þessu vant þótti Hafrannsóknastofnun ástæða til að endurreikna stofnstærð 10 ára þorsks. Var tveimur milljónum einstaklinga bætt inn í þann stofn eftir að hann var orðinn 10 ára, eins og hann birtist á vertíðinni síðasta vetur.

Tilefnið var einmitt það sem kom fram í máli hv. þingmanns, mikil fiskgengd var á vertíðinni og það varð til þess að menn endurreiknuðu stofnstærð á 10 ára gömlum fiski aftur í tímann. En mörg ár þar á undan hafði Hafrannsóknastofnun hins vegar verið að reikna þennan árgang niður, sem er reyndar viðteknari venja í skýrslum stofnunarinnar en það að stofninn sé reiknaður upp. Sem dæmi um það er rétt að segja frá því að þegar reiknitöflur eru skoðaðar yfir þá sex árganga sem nú eiga mest að vera í veiðinni, alveg upp í sjö til átta ára aldurinn, kemur í ljós að út úr þeim árgöngum er búið að taka 103 millj. fiska, úr öllum þeim (Forseti hringir.) árgöngum samanlagt.