Tekjuskattur

Mánudaginn 05. nóvember 2007, kl. 18:17:17 (1266)


135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[18:17]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Frú forseti. Ég er andvígur frumvarpinu sem hér er til umræðu og ég held að það byggist á miklum misskilningi flytjenda málsins.

Það er nú einu sinni svo að hin íslenska málvenja „opinber gjöld“ er ekki tilkomin að ófyrirsynju. Gjöldin renna til hins opinbera, til samfélagslegra verkefna, en þau eru lögð á með opinberum hætti. Í því felst niðurjöfnun kostnaðar eins og það hét í gamla daga, samfélagslegs kostnaðar, og það fylgir því ákveðið agavald á framteljendur að upplýsingar um álögð gjöld séu aðgengilegar opinberlega.

Á máli hv. 1. flutningsmanns, Sigurðar Kára Kristjánssonar, mátti skilja að um einhvers konar óviðurkvæmilegt fyrirbæri væri að ræða, það væri til vitnis um einhvers konar gægjuþörf af hálfu almennings að vilja fylgjast með fyrirkomulagi niðurjöfnunar opinberra gjalda. Fátt er fjær lagi. Það eru einfaldlega almannahagsmunir af því að upplýsingar þessar séu opinberar almenningi.

Ég vil gera athugasemd við það sem hv. 1. flutningsmaður rakti hér áðan og dæmin sem hann tók til að rökstyðja mál sitt. Þar vísaði hann sérstaklega til þagnarskylduákvæða í ýmsum lögum sem eru allt annars eðlis og hafa ekkert með þetta mál að gera. Samband sjúklings og læknis og samband einstaklings við lögmann sinn eða bókara er allt annars eðlis en það sem hér um ræðir. Hann rakti einnig ýmsa mannréttindasáttmála til þess að reyna að styðja mál sitt með en þar held ég að gæti einnig mikils misskilnings.

Miklu frekar er hægt að halda því fram að flutningsmenn séu að róa gegn straumi tímans. Það er alveg ljóst að á síðustu árum eru síauknar kröfur um gagnsæi, jafnt í opinberri stjórnsýslu sem í viðskiptalífi. Þessa sér stað hér á Íslandi, þessa sér stað í öðrum Evrópuríkjum og þessa sér stað í Bandaríkjunum. Nýbúið er að innleiða hér á Íslandi skyldu skráðra félaga í kauphöll til að upplýsa um launakjör lykilstarfsmanna. Það hefur verið til umræðu að setja einhvers konar ákvæði í lög um upplýsingaskyldu um efnahagslega stöðu þingmanna og ráðherra. Að því er ég best veit, frú forseti, eru til umfjöllunar í forsætisnefnd þingsins hugmyndir um gerð siðareglna fyrir þingmenn þar sem m.a. yrði þá tekið á upplýsingum um fjárhagsleg málefni að einhverju leyti.

Það sem við erum því að tala um í reynd er að hið íslenska kerfi, sem hefur fengið að lifa, er mikilvægur þáttur í að tryggja gagnsæi í íslensku samfélagi og sporna við spillingu. Það knýr þá sem eru áberandi í samfélaginu til að standa skil á upplýsingum um laun sín og tekjur og hjálpar því til að tryggja gagnsæi og halda íslensku samfélagi í efstu sætum yfir ríki þar sem spilling er minnst.

Ég tel að það sé mjög mikilvægt samfélagslegt hlutverk þess fyrirkomulags sem við búum við að þvinga menn sem eru áberandi í samfélaginu til þess að standa þá skil á því opinberlega þegar þeir eru að greiða sér laun sem eru úr öllu samræmi við framgöngu þeirra að öðru leyti. Það var alveg hárrétt rakið hér áðan hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að skattyfirvöld í nágrannaríkjum okkar, jafnt í Bandaríkjunum sem Evrópu, hafa miklu ríkari heimildir en skattyfirvöld hér til þess að horfa til þess hvernig menn búa og hvað þeir hafa umleikis og kalla eftir rökstuddum skýringum á því hvernig slíkur framgangsmáti geti samrýmst þeim tekjum sem þeir gefa upp. Slíkar heimildir eru í mun minna mæli hér á Íslandi en í öðrum nágrannaríkjum okkar. Það má segja að þetta kerfi sem við höfum gegni að vissu leyti því hlutverki.

Þá er ótalið hið mikilvæga samfélagshlutverk þessa kerfis að upplýsa okkur um strúktúrvanda í samfélaginu. Það er t.d. einfalt að sjá á samanburði milli ólíkra sérfræðingastétta að launamunur er gegnumgangandi eftir því hvort viðkomandi sérfræðingar vinna í höfuðatriðum fyrir hið opinbera eða í sjálfstæðum rekstri. Þetta veitir viðkomandi stéttum aðhald, þetta gefur skattyfirvöldum vísbendingar og þetta er mikilvægt í opinberri umræðu.

Að síðustu er það alveg rétt að þetta kerfi hefur veitt okkur mjög mikilvægar upplýsingar á undanförnum árum til þess að ræða með vitrænum hætti um kynbundinn launamun. Ef ekki hefðu legið fyrir opinber gögn um laun og opinber gögn sem hafa gert samanburð mögulegan hefði okkur ekki verið mögulegt að meta með sama hætti kynbundinn launamun. Ég held að það séu þess vegna enn ein rökin fyrir þessu kerfi að við höldum því sem verið hefur sérkenni íslensks samfélags, að menn standi fyrir máli sínu þegar kemur að framtali tekna og þurfi í þágu almannahagsmuna að vera tilbúnir að standa skil á því með hvaða hætti þeir telja fram tekjur sínar.