Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007, kl. 13:46:23 (1719)


135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[13:46]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Úrskurðarnefndirnar voru settar á laggirnar á sínum tíma til að auka skilvirkni í stjórnsýslunni og þeim hefur fjölgað stöðugt. Ég lagði fram fyrirspurn um hvað þær kostuðu fyrir einu eða tveimur árum. Það er lagt stórfé í þessar nefndir. Sumar þeirra eiga rétt á sér en ég hef sett fram þá hugmynd að skjóta fyrsta stigi stjórnsýsluákvörðunar beint til dómstóla í mörgum tilfellum í staðinn fyrir að vera með úrskurðarnefndir. Það gerðist á árunum 1992 þegar réttarfarsbreytingarnar voru gerðar, að dómstólar eru skilvirkari heldur en þessar úrskurðarnefndir. Þeir eru í stakk búnir til að taka við flestum störfum þeirra þannig að ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hún og flokkur hennar muni beita sér innan ríkisstjórnarinnar til að taka þetta kerfi til endurskoðunar. Við erum með tvöfalt dómstólakerfi og það hefur sýnt sig að skilvirkni úrskurðarnefnda er minna en dómstóla. Skilvirkni dómstóla á Íslandi er mjög góð í dag, alveg ótrúlega góð.

Að því er varðar skipulagsnefndina þá verð ég að gera svolítinn greinarmun á því hvort hún skili verki vel eða illa. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er óviðunandi að hún skili svo seint. Ég vil þó segja að úrskurðir hennar eru faglegir og góðir, svo ég haldi því til haga. Ég hef álit á henni. Hins vegar er spurning um hvaða umgjörð slíkum nefndum er búin. Það er alveg greinilegt. Ég veit af því að þessi nefnd hefur verið í fjársvelti. Hún hefur unnið baki brotnu við afgreiðslu mála og það er óþolandi, og ég er sammála hv. þingmanni um það, að þetta dragist jafnlengi og raun ber vitni, að menn þurfi að bíða með framkvæmdir, byggingar eða breytingar eins og skipulagsyfirvöld þurfa að gera, von úr viti, jafnvel nokkur ár.