Urriðafossvirkjun

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007, kl. 16:10:27 (1754)


135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

Urriðafossvirkjun.

[16:10]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Mér þykja heldur nöturleg skilaboð sem hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sendir kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum ef hún heldur því fram að þeir láti undan ægivaldi þess skelfilega fyrirtækis Landsvirkjunar og að Landsvirkjun gangi hvarvetna fram með offorsi og frekju þannig að kjörnir fulltrúar lyppist niður. Mér þykir ekki smekklegt af hv. þingmanni að tala svona.

Er hv. þingmaður að segja það við kjörna fulltrúa á Alþingi? Hvað er hv. þingmaður að segja við kjörna fulltrúa yfirleitt ef hún heldur því fram að við munum lyppast niður út af ægivaldi fyrirtækja? Þetta er rangt og ekki maklegt að tala svona.

Það er athyglisvert að fylgjast núna með málefnum Reykjavíkur þar sem vinstri grænir hafa nú sterka stöðu og fylgjast með því hvernig öllum málum sem erfið eru virðist komið. Þau eru í stýrihóp um þetta og hitt, það er stýrihópur um málefni Orkuveitu Reykjavíkur, stýrihópur um framtíð orkufreks iðnaðar eða auðlindanýtingar í eigu Reykjavíkur. Hvað finnst hv. þingmanni sem ég veit að hefur miklar skoðanir á Þjórsá, og það er gott, um Hengilinn, um Bitruvirkjun, um Hverfell? Hver er stefna vinstri grænna þar?

Það liggur fyrir að virkjun í neðri Þjórsá — Þjórsá er mjög virkjuð á, það vitum við, veruleg röskun hefur þegar átt sér stað þar — er besti virkjunarkosturinn í landinu. Við getum hins vegar deilt um það hvort það eigi yfirleitt að virkja. Það er allt önnur umræða. En að halda því fram að sveitarstjórnir hér um landið gefist upp fyrir fyrirtækjum finnst mér ekki rétt.