Almannatryggingar o.fl.

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007, kl. 18:52:43 (1796)


135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:52]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Hv. þingmaður fullyrðir að kjör aldraðra hafi batnað mjög verulega. Það er athyglisverð yfirlýsing og ég efast ekki um að hv. þingmaður stendur í þeirri trú. En þetta er bara alls ekki í samræmi við veruleikann, við verðum því miður að horfast í augu við það. Ástandið sem snýr að bótum, sköttum, þjónustu og öllum meiri háttar málefnum aldraðra hefur versnað að mun á á undanförnum árum. Það er staðreynd sem hefur valdið því að nánast er byltingarástand í röðum aldraðra á Íslandi.

Ég ítreka að frumvarpið sem hér er til umræðu er forsendan fyrir því að við getum hafið sókn til úrbóta. Ég get kannski ekki lofað neinu úr þessum ræðustól en ef hv. þm. er að vísa til frumvarps sem enn er í meðförum í nefnd þá segi ég: Við skulum spyrja að leikslokum í þeim efnum.