Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007, kl. 20:06:37 (1819)


135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

innflutningur dýra.

204. mál
[20:06]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 219, 204. mál þingsins, en um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu eru áformaðar breytingar á lögum um innflutning á dýrum sem í megindráttum er ætlað að einfalda málsmeðferð, stytta málsmeðferðartíma og skýra einstök ákvæði laga um innflutning dýra. Með frumvarpinu er lagt til að ákvörðunarvald um innflutning gæludýra, sem ekki teljast til nýrra dýrategunda eða erlendra stofna tegunda sem hér eru fyrir, færist frá landbúnaðarráðuneytinu til yfirdýralæknis, sem um langt árabil hefur haft á hendi sérfræðiverkefni sem lúta að innflutningi dýra. Ákvörðunum yfirdýralæknis má skjóta til úrskurðar ráðherra verði frumvarpið að lögum.

Með frumvarpinu er áformað að skýra og einfalda lög um innflutning dýra nokkuð. Þannig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að hugtakið búfé í lögunum taki mið af nýlegri skilgreiningu búfjár í lögum um búfjárhald o.fl., nr. 103/2002. Einnig er ætlunin að skýra þær reglur sem gilda um innflutning á svínum og erfðaefni þeirra en við breytingu á lögum um innflutning dýra árið 2002, sem hafði að markmiði að auðvelda innflutning á svínum og erfðaefni þeirra, láðist m.a. að breyta skilgreiningu laganna á einangrunarstöð. Af þeim sökum eru lögin ekki eins skýr um innflutning svína og æskilegt væri. Ég vil hins vegar leggja áherslu á að með frumvarpinu er ekki verið breyta reglum um innflutning svína efnislega.

Loks skal nefnt að frumvarpið fellur að nýútkominni áætlun um einföldun regluverks og stjórnsýslu í landbúnaðarráðuneytinu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og til 2. umr.