Olíugjald og kílómetragjald

Mánudaginn 19. nóvember 2007, kl. 16:08:39 (1855)


135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

olíugjald og kílómetragjald.

231. mál
[16:08]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég velti fyrir mér þegar ég heyri ræðu hv. þingmanns hvort hann sé yfirleitt umhverfisverndarsinni eða ekki vegna þess að hann talar um að hann vilji lækka skatta á brennsluefni, þ.e. ríkið fari að niðurgreiða hækkun á eldsneyti um allan heim. Það er dálítið athyglisvert. Meðan umhverfisverndarsinnar í öðrum löndum gleðjast yfir því að orkuverð hækkar og minnkar þar með neysluna og hvetur menn til að uppgötva aðra orkugjafa, því það gerir hækkun á eldsneytisverði óneitanlega, þá er hv. þingmaður hér uppi á Íslandi sem vill lækka þennan mun enn frekar og lækka kostnaðinn við brennsluefni sem er hrein losun á koldíoxíði. Svo geta menn trúað því hvort jörðin sé að hitna eða ekki.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Er það virkilega svo að hann vilji lækka verð á þessu eldsneyti?

Svo sagði hann — og það er mjög athyglisvert. Það er svona sovésk hugsun — að hann vilji festa niður verðmun á bensíni og olíu, dísil. Íslenska ríkið eigi að vinna gegn markaðsöflunum í heiminum. Þegar markaðsöflin í heiminum segja að dísilolía eigi að hækka og hún hækkar meira en bensín þá á íslenska ríkið að búa til reglu sem eyðir þeim mun aftur. Hv. þingmaður vill sem sagt að Ísland sé bara tekið úr sambandi við markaðslögmálið í heiminum og vill bara nákvæmlega eins og í Sovétríkjunum halda hér föstu verði og föstum mismun eins og ráðamenn telja hann réttan.