Húsnæðismál

Miðvikudaginn 21. nóvember 2007, kl. 13:44:42 (2023)


135. löggjafarþing — 30. fundur,  21. nóv. 2007.

húsnæðismál.

[13:44]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi komið fram með skýrum hætti hjá félagsmálaráðherra, í umræðum um húsnæðismál nú fyrir skömmu, bæði hvaða staða er uppi á markaðnum og eins að ríkisstjórnin tekur þessi mál að sjálfsögðu mjög alvarlega.

Við erum m.a. að fást við þann vanda sem margir vöruðu við á sínum tíma, að með hækkun lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs upp í 90% væri fyrirsjáanlegt að verð á húsnæði mundi hækka. Sú varð raunin en að sjálfsögðu hafði koma bankanna inn á þennan markað líka sín áhrif, því er heldur ekki að neita, og sú samkeppni sem hefur verið milli Íbúðalánasjóðs og bankanna á þessum markaði.

Við skulum heldur ekki gleyma því að hluti af þeirri hækkun sem hefur orðið á húsnæði hefur orðið vegna þess að hagvöxtur hefur verið mikill. Var við því að búast að við slíkar aðstæður mundi húsnæðisverð hækka. Ég get tekið undir það með þeim ágætu hv. þingmönnum sem hér hafa talað að vissulega hljótum við að hafa áhyggjur af því að erfitt sé fyrir ungt fólk að koma undir sig fótunum á þessum markaði. Ekki var hægt að skilja orð félagsmálaráðherra með nokkrum öðrum hætti en þeim að hún deildi þeim áhyggjum og verið væri að vinna í þeim málum, sjá til hvaða ráðstafana sé hægt að grípa af hálfu ríkisstjórnarinnar. En við skulum ekki horfa fram hjá því að hluti af þeirri hækkun sem orðið hefur á húsnæði, og sérstaklega á Reykjavíkursvæðinu, á sér rætur í hagsveiflunni, á sér rætur í þeirri ákvörðun Íbúðalánasjóðs að hækka lánshlutfallið og á sér síðan rætur í því að aðgengi að lánsfé var auðveldað. Margt á sér skiljanlegar ástæður og menn verða að gera sér grein fyrir því að ríkisvaldið hefur takmörkuð tæki til að breyta hlutum t.d. í þá átt að lækka húsnæðisverð. Ég efast um að það geti orðið sérstakt markmið í sjálfu sér.