Lífskjör á Íslandi

Þriðjudaginn 27. nóvember 2007, kl. 13:43:32 (2059)


135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

lífskjör á Íslandi.

[13:43]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Á fund viðskiptanefndar í morgun kom tollstjórinn í Reykjavík og sagði frá því að það sem af væri árinu hefðu verið gerð fimm þúsund árangurslaus fjárnám á innheimtusvæði hans. Í tilefni af þeim umræðum sem hér er stofnað til, þar sem vakin er athygli á því að við erum í fyrsta sæti hvað varðar meðaltekjur og annað, ber að óska ríkisstjórninni til hamingju.

Á sama tíma liggur fyrir að fimm þúsund árangurslaus fjárnám hafa verið gerð það sem af er árinu. Það liggur líka fyrir að biðraðir hjá Fjölskylduhjálp Íslands og öðrum hjálparstofnunum hafa lengst verulega. Það eru fleiri sem óska eftir aðstoð og eiga ekki fyrir mat út mánuðinn. Viðtöl birtast við fólk á öldrunarheimilum og á stofnunum fyrir fatlaða — m.a. í Morgunblaðinu, svo að vitnað sé í blað sem ýmsir hér inni taka mikið mark á — sem á ekki fyrir mat út mánuðinn. Þegar við skoðum niðurstöðurnar sem stjórnarsinnar berja sér nú á brjóst yfir og slíkar staðreyndir getum við ekki sagt annað en að kominn sé afgerandi velferðarhalli í þjóðfélaginu, velferðarhalli sem taka verður á. Mikil skil eru á milli þeirra sem eiga allt og miklu meira en allt og hinna sem hafa ekkert fyrir sig að leggja.

Það hlýtur að vera mesta og brýnasta viðfangsefni stjórnvalda á Íslandi að lagfæra þann velferðarhalla sem orðinn er í íslensku samfélagi. Fimm þúsund árangurslaus fjárnám segja okkur að verulegt verk er að vinna. Þegar tollstjórinn í Reykjavík segir: Við horfum framan í einstaklinga á hverjum einasta degi og getum ekki leyst vanda þeirra, getum við ekki verið sérstakt velferðarþjóðfélag. Velferðinni er þá alla vega ekki rétt skipt.