Flutningsgeta byggðalínu

Miðvikudaginn 28. nóvember 2007, kl. 14:37:33 (2174)


135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

flutningsgeta byggðalínu.

217. mál
[14:37]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil bara áður en ég svara hv. þingmanni taka undir með henni að það ætti að ganga lengra í aðskilnaði á flutningsfyrirtækjum og framleiðslufyrirtækjum. Ég er hjartanlega sammála því. Ég er líka sammála hv. þingmanni í þeim skilningi sem hún sýnir því að framkvæmda í línulögnum mun auðvitað sjá stað í gjaldskrá. Þess vegna þurfa menn að fara varlega í því að byggja upp flutningskerfi þannig að ekki sé verið að ráðast í of miklar fjárfestingar sem hugsanlega svara einhverri þörf sem er ekki fyrir hendi.

Hv. þingmaður spyr mig nokkurra mjög vel afmarkaðra spurninga. Hún spyr hver yrði flutningsgeta byggðalínu og hversu mikil orka yrði til aflögu á tengipunktum á Norðausturlandi. Í fyrsta lagi ef byggðalínan yrði spennt upp í 220 kílóvolt þá mundi það auka flutningsgetu hennar um 100 megavött, þ.e. úr 130 í 230 megavött. Að því gefnu að framleiðslugeta raforkukerfisins mæti aukinni eftirspurn væri því hægt að afhenda við þessa tengipunkta á Norðausturlandi allt að 100 megavöttum til viðbótar sem væri framleitt utan svæðisins. Ég tek það fram að ég er hér að tala um orku sem framleidd er utan svæðisins.

Í öðru lagi spyr hún: Hvað yrði ef ný 220 kílóvolta lína yrði byggð? Þá væri hægt að auka flutningsgetu byggðalínunnar, ef sú nýja kæmi algjörlega í staðinn fyrir þá sem nú er, um 300 megavött og allt upp í 1000 megavött. Munurinn, þetta mikla hlaup sem kemur fram í svari mínu ræðst af því að flutningsgetan helgast af hönnun línanna og því hversu burðarmiklir, hversu flutningsmiklir leiðararnir eru. Fjárfestingin er svo aftur fall af því líka.

Menn þurfa því að meta vel fram í tímann hver þörfin er, og sömuleiðis að haga fjárfestingum sínum í samræmi við það. Eins og hv. þingmaður sagði í framsögu sinni mun gjaldskrá bera merki um framkvæmdir í línulögnum. Í 9. gr. raforkulaganna sem hv. þingmaður vísaði til áðan er sú kvöð lögð á flutningsfyrirtækið að haga framkvæmdum og áætlunum sínum þannig — ákvæðið er ekki hægt að túlka öðruvísi en að það verði að koma málum sínum þannig fyrir að ekki leiði til slíkra gjaldskrárhækkana að alþýða manna beri af því ok um of.