Flutningsgeta byggðalínu

Miðvikudaginn 28. nóvember 2007, kl. 14:42:58 (2176)


135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

flutningsgeta byggðalínu.

217. mál
[14:42]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég dáist að tærri og einfaldri nálgun hv. þingmanns að raforkukerfinu. Hv. þingmaður orðaði það svo að nú séu aðstæður þannig að það sé hægt að keyra kerfið harkalega og framleiða meira. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Staðan t.d. í loftslagsmálum er þannig að við höfum samkvæmt spám meira vatn og þess vegna meiri orku að hafa úr straumvötnum okkar í framtíðinni en við höfum haft. Það er því alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það er mögulegt að með þessum hætti sé hægt að fá út úr þeim virkjunum sem við höfum meiri orku til framleiðslu en nú er gert.

Hv. þingmaður beindi til mín ákveðnum leiðbeiningum, sem ég tek fúslega við, en ég vil þó ekki að svo stöddu taka undir það sem hv. þingmaður sagði í niðurlagi máls síns. Ég skildi hv. þingmann þannig að hún væri í reynd að segja að vegna þess að markaðurinn hefði verið opnaður kannski fyrr en að breytingar á sjálfu kerfinu hefðu verið fullbúnar, þá mætti velta því fyrir sér að einstakar flutningslínur, eða partar af kerfinu, yrðu byggðir af hálfu ríkisins án þess að þess sæi stað í gjaldskránni. Nú veit ég ekki hvað hv. þingmaður er að hugsa um en miklar ástarjátningar hennar til álvers á Bakka í fyrri ræðu hennar kynnu hugsanlega að hafa vakið þetta.

Ég vil hins vegar segja það við hv. þingmann af því að hún talaði um stórframkvæmdir á Bakka að þar er náttúrlega um að ræða svo mikla orkuþörf að ég er ekki alveg sannfærður um það að spenna línuna upp í 220 kílóvolt skipti svo miklu máli. Ef hv. þingmaður ætlar sér að fá mikla orku til þess verks úr öðrum landshlutum þá þyrfti að ráðast í miklu frekari fjárfestingar. En þá líka hlýtur vesalings iðnaðarráðherrann að spyrja: (Forseti hringir.) Hvaðan á sú mikla orka að koma? Það er allt á toppi í dag.